136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

ljósleiðarastrengirnir Farice og Danice.

314. mál
[15:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ármann Kr. Ólafsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svör hans. Eins og fram kom hjá honum er flutningsgeta Farice-strengsins 720 GB á sekúndu, það er búið að setja upp 100 GB og selja 80% af þessum 100 GB. Það þýðir að verið er að slíta smáhluta af strengnum. Sama má segja um þennan Danice-streng, menn hyggja að setja upp 100 GB á sekúndu og telja sig vera búna að selja inn á það. En hann flytur, ef ég kann þetta rétt, 5.000 GB, þannig að það er varla byrjað að selja nema bara brotabrotabrot inn á þá flutningsgetu. Samt bíða fyrirtæki hér í röðum og vilja koma, hæstv. samgönguráðherra. Ég held að ég geti fullyrt að þau séu þrjú, fjögur sem væru nánast alveg klár í að koma hingað ef verðlagið sem verið er að bjóða þeim inn á þessa strengi væri ekki svona hátt. Það er mjög hátt og ég veit það að þeim er þröngur stakkur sniðinn, forráðamönnum þessara fyrirtækja, Danice og Farice. En þetta er hins vegar spurningin um pólitískan vilja.

Ég vil að aðgerðaríkisstjórnin grípi til aðgerða í þessum málum í stað þess að setja málin á ís. Það þýðir ekki bara að funda og funda og bjóða fólki í heimsókn. Það þarf að klára málin. Við erum í samkeppni við umheiminn og þess vegna þarf að leiðrétta verðið á þessu. Ástæðan fyrir því að ég segi að þetta sé spurning um pólitískan vilja er sú að eignarhaldið er þannig að Landsvirkjun, ríkið og Orkuveita Reykjavíkur hafa langmest með þetta að gera. Svo er þetta líka spurningin um hvernig innheimta opinberra gjalda fer fram. Ég fullyrði að það er ekkert mál að koma tveimur gagnaverum hér af stað á næstu vikum sem skapa 400 störf á meðan er verið að byggja þau næsta eina og hálfa árið og í framhaldinu erum við að tala um 200–300 störf miðað við þau svör sem ég hef fengið frá hæstv. iðnaðarráðherra.

Þetta skapar atvinnu og þetta skapar gjaldeyristekjur (Forseti hringir.) og nú þarf bara að ganga til verka í aðgerðaríkisstjórninni. Það væri nú gaman að sjá þau ganga til verka einu sinni.