136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

starfsemi vistunarmatsnefnda.

309. mál
[15:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ólafsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka heilbrigðisráðherra fyrir hans svör. Miðað við þau svör sem ég fæ í þessari umræðu ætla ég að taka það skýrt fram að vistunarmatið hefur verið til mikilla bóta. Ég er ekki að kvarta yfir vistunarmatinu sem slíku. Ég er ekki að kvarta yfir þeim úrræðum sem eru til staðar nú þegar. Ég er að tala um þá brotalöm sem er þá á milli, ef mér skilst rétt, landlæknisembættisins og heilbrigðisumdæmanna. Einstaklingar á biðlistum fá ekki svör eða þjónustu samkvæmt reglugerðinni, þeir eru ekki upplýstir um stöðu sinna mála, hvorki hvort þeir eru að detta út af biðlista eða aðstandendum gert viðvart og annað því um líkt. Með þessum allt of stóru heilbrigðisumdæmum er kannski verið að vista fólk innan sama svæðis en í hinum endanum þannig að það kemur niður á einstaklingnum, hann þekkir ekki umhverfi sitt. Nærþjónustan er þar af leiðandi ekki í lagi að mínu mati og mér finnst að viss afturför hafi orðið þrátt fyrir ýmislegt gott sem hefur komið fram.

Lögboðin skylda á milli svæða er hjá, eftir því sem ég skildi, hjá landlæknisembættinu en þá virðist bregða svo við að það á milli nefndanna og landlæknisembættisins og einstaklinganna sem hlut eiga að máli eða fjölskyldna þeirra virðist vera mikil brotalöm.

Ég talaði sjálf við öldrunarlækni sem hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að eiga góðan og greiðan aðgang að, Ólaf Þór. Hann tjáði mér á sínum tíma að mjög mikil brotalöm væri þarna í kerfinu og þess vegna er ég að ítreka þetta. Ég er ekki að kvarta yfir allri þeirri þjónustu (Forseti hringir.) sem er veitt þegar búið er að reyna öll úrræði þá er aðeins þetta sem stendur út af borðinu.