136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

starfsemi vistunarmatsnefnda.

309. mál
[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá heilbrigðisráðuneytinu þá er reynt að stuðla að upplýsingamiðlun á milli vistunarmatsnefndanna og vísað til þess að þær hafi upplýsingar í gagnagrunni sem þær hafi aðgang að. Hins vegar eru fram komnar ábendingar sem nauðsynlegt er að taka til skoðunar. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir það og því verður vísað áfram til landlæknisembættisins sem hefur þessi mál með höndum.

Varðandi samþættingu félagslegra úrræða og heilsufarslegra tek ég undir með hv. þm. Ástu Möller að það er mikilvægt að þar séu náin og þess vegna stofnanaleg tengsl í milli. Ég held að þróunin verði sú á komandi árum að heilbrigðisþjónustan og félagsþjónusta almennt muni færast til sveitarfélagsstigsins. Það eru óskir um það frá sveitarfélögunum almennt. Spurningin er um fjárhagslega burði til að sinna slíkum verkefnum en um þetta fara fram viðræður í ráðuneytum.

Annað í þessari þróun er að aukin rækt hefur verið lögð við aðstoð við fólk á eigin heimilum. Það er stefna sem ég held að þverpólitísk samstaða sé um á þingi að beri að styrkja og ýta undir. Sú þjónusta hefur verið að batna á undanförnum árum og er það mjög vel þó að það verði ætíð þannig að svo geti farið í mörgum tilvikum, þegar fólk er orðið mjög aldrað og ósjálfbjarga, að það eigi ekki annarra kosta völ en að leita inn á hjúkrunarrými. Þetta þarf að sjálfsögðu að verða blanda hvað þetta snertir þegar úrræðin eru annars vegar.