136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. heilbrigðisráðherra lýtur að því hvaða hugmyndir hann hefur um nýtingu á nýjum skurðstofum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hafa ekki haft næg verkefni til að tryggja rekstur þeirra.

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra hugðist gera skipulagsbreytingar á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem fólu það m.a. í sér að hluti af þeim skurðaðgerðum sem framkvæmdar eru á St. Jósefsspítala áttu að flytjast á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ákveðið að hætta við breytingarnar á St. Jósefsspítala. Sú ákvörðun hefur mikil áhrif á áform Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem bjó sig undir að umsvif mundu frekar aukast en minnka þar sem fyrirhugaðar breytingar voru hugsaðar til að efla starfsemina á nýjum fullkomnum skurðstofum og þar með efla stofnunina í heild til að taka við verkefnum frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem eitt af kragasjúkrahúsunum svokölluðu. Samningur var undirritaður á síðasta ári vegna þeirrar samvinnu og veit ég ekki betur en að það samstarf gangi mjög vel.

Nú háttar þannig til á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að þar standa tvær nýjar og fullkomnar skurðstofur nánast ónotaðar. Nýtingin er nú þannig að önnur skurðstofan er notuð fjóra daga vikunnar en hin stendur enn ónotuð. Í þessum nýju skurðstofum liggur um það bil 150 milljarða kr. fjárfesting og þær nýttar jafnlítið og raun ber vitni. Þær hlýtur að vera hægt að nýta töluvert betur, skurðstofurnar eru einungis í 50 km fjarlægð frá höfuðborginni og samgöngur á Suðurnesjum eru mjög góðar.

Nú hefur viðsnúningur hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi St. Jósefsspítala sett starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja enn einu sinni í uppnám. Nú standa stjórnendur frammi fyrir því að þurfa að skera niður, m.a. með því að segja upp bakvöktum á skurðstofum sem þýðir enn frekari samdrátt í nýtingu þeirra.

Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra veit hefur mikil óvissa einkennt starfsemi heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í mörg ár. Með skipulagsbreytingu fyrrverandi heilbrigðisráðherra var að nást ágæt niðurstaða varðandi reksturinn á skurðstofunum og hefði þessi breyting náð fram að ganga hefði niðurskurður ekki þurft að vera eins mikill þar sem stofnunin hefði getað haft tekjur vegna aukinna umsvifa á skurðstofum.

Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða úrræði eru í stöðunni fyrir stofnunina? Eða er kannski ætlunin að láta skurðstofurnar standa ónotaðar til framtíðar?