136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hvað varðar þá spurningu sem fram kom um hvort svipaður háttur verði hafður á varðandi heilbrigðisstofnanir á Selfossi og Vestmannaeyjum, eins og ég hef verið að skýra frá gagnvart St. Jósefsspítala annars vegar og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hins vegar, þá er svarið játandi. Það verður reynt að gera. Það er rétt sem fram kom hjá forvera mínum í embætti að staðreynd er að offramboð er á skurðstofurými á höfuðborgarsvæðinu og spurningin er hvernig við nýtum þetta rými á sem hagkvæmastan hátt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að í þessu felast ýmis tækifæri. Spurningin er fyrir hverja tækifærin eru. Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, þykir mönnum rétt að horfa líka til einkareksturs. Í skýrslum forvera míns í embætti var líka að finna hugmyndir um slíkt, að gera sjúkrahúsið á Suðurnesjum að hluta til að einkareknum spítala. Menn mega fyrir mér búa til allan þann einkarekstur sem þeir vilja, alla þá einkaspítala og allan þann einkarekstur sem þeir vilja. Ef menn ætlast hins vegar til þess að ég borgi fyrir það sem skattgreiðandi þá vil ég hafa hönd í bagga. Það er það sem við erum að reyna að gera núna, það er að sjá til þess að fjármunirnir séu nýttir á sem allra hagkvæmastan hátt frá sjónarhóli skattborgarans og með hliðsjón af þörfum og óskum íbúanna á svæðinu og eftir þeirri reglu er nú unnið.