136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Icesave-nefndin.

[10:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það vill svo skemmtilega til að ég þarf eiginlega ekki að segja neitt sjálfur því ég ætla að lesa það sem hæstv. ráðherra sagði þann 15. desember, með leyfi frú forseta:

„Það hefur alltaf slegið mig illa, burt séð frá viðhorfum mínum til innihalds mála, þegar menn grípa til nauðhyggjuröksemda og telja sig þar með ekki þurfa frekari vitna við, þetta sé bara svona og það verði bara að gera þetta svona. Þess vegna fór maður að spyrja sig strax í októbermánuði og nóvembermánuði: Verðum við ekki að reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir í heild sinni?“

Það er einmitt þetta sem hæstv. ráðherra segir: Þetta er bara svona og þess vegna verður að gera þetta svona. Ég skora á hæstv. ráðherra að standa með mér í því að vernda hagsmuni þjóðarinnar í þessu máli og fela samninganefnd sinni í besta falli að rifta þessu, í versta falli að semja um að þetta sé vaxtalaust.