136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

staða námsmanna.

[10:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er brýnt og við framsóknarmenn hér á þingi höfum haldið því fram að við notum þá örfáu daga sem eftir eru fram að kosningum til að koma héðan góðum málum til að mæta því bráða ástandi sem við okkur blasir, þeim miklu vandamálum. Reyndar höfum við framsóknarmenn lagt fram tillögur í þeim efnum um hvernig við viljum að vanda fyrirtækja og heimila verði mætt sem mér heyrist að hæstv. forsætisráðherra hafi misskilið herfilega og við þurfum að ræða betur á vettvangi þingsins.

En mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvernig hún ætli sér að bregðast því að næstkomandi vor munu 40 þúsund námsmenn koma út á vinnumarkaðinn úr skólum landsins, og þá er ég að tala um háskóla og framhaldsskóla. Hefur hæstv. ráðherra hugleitt hvaða staða muni koma upp í íslensku samfélagi og íslenskum vinnumarkaði þegar 40 þúsund námsmenn munu koma út á vinnumarkaðinn í ofanálag þar sem mögulega 20 þúsund atvinnulausir eru fyrir? Til hvaða úrræða vill hæstv. ráðherra grípa? Vill hæstv. ráðherra bregðast við með þeim hætti að auka námsframboð innan háskóla og framhaldsskóla þannig að í stað þess að ungt fólk gangi um göturnar atvinnulaust geti það snúið sér að einhverjum verkefnum, haldið áfram að mennta sig? Ég tel það mjög brýnt í þessu ástandi að þessir 40 þúsund einstaklingar hafi eitthvað fyrir stafni. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig ríkisstjórnin ætli að beita sér í þeim efnum að koma til móts við þarfir þessa fjölmenna hóps.