136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

staða námsmanna.

[10:44]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni þessa fyrirspurn. Þetta eru eðlilegar áhyggjur sem hann lýsir og nú síðast í gær voru fulltrúar framhaldsskóla í heimsókn hjá mér að viðra áhyggjur sínar af sumarstörfum fyrir framhaldsskólanema. Það er margt sem hangir á þeirri spýtu, til að mynda miðast framfærslugrunnur Lánasjóðs ísl. námsmanna við það að námsmenn hafi eina milljón í sjálfsaflafé sem þeir afla sér væntanlega með sumartekjum og síðan vinnu með námi. Það er því mjög margt sem hangir á þeirri spýtu ef lítið verður um vinnuframboð handa námsmönnum.

Það er farinn af stað vinnuhópur undir stjórn iðnaðarráðuneytisins sem snýst um þetta, sumarstarfamál námsmanna, hvað hægt sé að gera í þeim efnum. Framhaldsskólanemar, svo dæmi sé tekið, hafa mikið leitað til sveitarfélaga sinna um vinnu en sveitarfélög stefna flest að því að skera þar niður líka. Vinnuhópurinn er nýlega farinn af stað, var skipaður í gær, menntamálaráðuneytið skipaði sinn fulltrúa í gær og hann á að vinna hratt að því að koma fram með tillögur til lausnar. Enn fremur vil ég nefna að annar vinnuhópur er í gangi sem snýr sérstaklega að samspili lánasjóðsins og vinnumarkaðarins þar sem í sitja fulltrúar Lánasjóðs ísl. námsmanna, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnumálastofnunar. Þar er verið að finna út úr þessu atvinnuástandi og hvernig hægt verði að koma til móts við námsmenn á háskólastigi. Hér er verið að horfa á allar lausnir og sá möguleiki sem hv. þingmaður nefndi, að hugsanlega yrði aukið námsframboð í sumar til að námsmenn gætu nýtt tíma sinn og unnið sér í haginn með þeim hætti er að sjálfsögðu líka til skoðunar í þessum hópi.