136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

stjórn bankakerfisins.

[10:59]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir svör hæstv. fjármálaráðherra. Auðvitað er ég ekki að vega að því fólki sem starfar í bönkunum. Ég er að tala um að bankarnir séu stjórnlausir að því leytinu til að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki tekist að skipa bankaráðsformenn. Það er það sem umræða mín gekk út á og algjör útúrsnúningur, hæstv. forseti, að segja að ég hafi sagt að fólkið í bönkunum ynni ekki vinnuna sína.

Það sem gerist alltaf hjá öllum fyrirtækjum, hvort sem það eru bankar, fyrirtæki á einkamarkaði, opinber fyrirtæki eða hvað sem er, er að þegar ekki er ljóst hver skipstjórinn er í brúnni verður ákveðin óvissa innan fyrirtækjanna og það verður alltaf erfiðara fyrir þá sem eru í fyrirtækjunum að ganga til verka. Það þarf alltaf skipstjóra um borð. (Gripið fram í: … Seðlabankanum.) Hv. þm. Grétar Mar Jónsson grípur alltaf fram í þegar ég kem í þennan stól, alveg ótrúlegur dónaskapur.

Það sem ég er að undirstrika er að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki tekist að skipa bankaráðsformenn og nú á að fara að skipa bráðabirgðastjórn yfir Seðlabankann. Hvað skyldi það taka langan tíma?