136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

stjórn bankakerfisins.

[11:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég bið bara hv. þingmann að hafa ekki af þessu stórar áhyggjur. Í augnablikinu, kannski einn til tvo daga, er eitt sæti laust í einu bankaráði, það er nú allur vandinn. Að sjálfsögðu eru bankaráðin starfandi og ef á þarf að halda stjórna varaformenn bankaráðanna fundum meðan svo stendur á. Það ástand mun ekki vara lengi. Ég get fullvissað hv. þingmann um það.

Það voru mér vonbrigði að þeir ágætu menn sem tóku að sér formennsku í bankaráðum Kaupþings og Glitnis skyldu óska eftir því að hætta. Mér leiddist líka hvernig Sjálfstæðisflokkurinn fór að reyna að gera út á það mál, ákaflega ómerkilega satt best að segja. Það var hvorki gott fyrir mig né þá ágætu menn sem þar áttu í hlut. Ég hef fulla trú á að við hefðum leyst farsællega úr því máli ef við hefðum fengið frið til þess en það fengum við ekki vegna Sjálfstæðisflokksins. Sú varð þess vegna niðurstaðan í því tilviki sem allir þekkja. Hv. þingmaður þarf ekki að hafa af þessu minnstu áhyggjur, ég legg til að hann sofi bara rólega í Kópavoginum.