136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Sementsverksmiðjan á Akranesi.

[11:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði hvort ég hefði leitt hugann að málefnum Sementsverksmiðjunnar og öðrum innlendum fyrirtækjum í samkeppnisiðnaði sem hugsanlega væri hægt að beita til þess að skapa fleiri störf hér á Íslandi. Því er til að svara að iðnaðarráðherrann hefur leitt hugann að því mörgum sinnum og hefur átt samtöl um þau efni.

Ekki vil ég lofa því að hægt sé að ganga svo frá málum að beinlínis sé hægt að tryggja einu tilteknu fyrirtæki forgang í viðskiptum. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um það að eins og sakir standa vænkast hagur samkeppnisiðnaðar vegna þess að gengisbreytingar hafa orðið til þess að styrkja stoðir þeirra fyrirtækja. Það er alveg ljóst að við munum gera það sem hægt er til að efla innlenda sementsframleiðslu. Sú framleiðsla sem hv. þingmaður vísar til hefur mjög góðan orðstír. Verksmiðjan sem um ræðir og hefur mörgum sinnum komið til tals hér á Íslandi skapar mjög mikilvæg störf og ekki mun þurfa á neinum eftirrekstri að halda til þess að reyna að ýta undir þá framleiðslu.

Iðnaðarráðherrann hefur líka leitt hugann að margvíslegum öðrum hlutum sem geta orðið til þess að ýta undir sköpun íslenskra starfa. Til að mynda veit hv. þingmaður að ég hef beitt mér fyrir því að sköpuð verði 2.000 störf á Suðurnesjum til þess að reyna að vinna bug á atvinnuleysinu. Ég á hér við Helguvík sem ég veit að hv. þingmaður og ég erum svolítið ósammála um. Sömuleiðis á ég í viðræðum við Elkem um möguleikana á því að setja upp 350 manna sólarkísilverksmiðju í næsta nágrenni við Sementsverksmiðjuna. Í kjördæmi hv. þingmanns eru líka í gangi hugmyndir og vinna við að koma af stað koltrefjaverksmiðju sem gæti skapað 70 störf á Sauðárkróki og svo mætti lengi telja. Um þetta erum við hv. þingmaður meira og minna (Forseti hringir.) sammála ef frá er talið það smáatriði sem lýtur hugsanlega að stóriðju.