136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Sementsverksmiðjan á Akranesi.

[11:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður gengur héðan úr stólnum formælandi hinum góða EES-samningi sem ég er sammála hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um að skapaði mjög sterk tækifæri fyrir Íslendinga sem Íslendingar nýttu.

Hitt er hárrétt hjá hv. þingmanni að okkur ber sem stjórnvaldi að gera allt sem hægt er til að ýta undir innlenda framleiðslu og svo sannarlega mun ekki standa á mér að gera það sem hægt er til þess að draga úr því að Íslendingar noti innfluttan varning og noti í staðinn innlenda framleiðslu.

Ég held að þeir möguleikar sem fram undan eru á næstu missirum til þess að skapa störf innan lands felist einmitt í vexti íslenskra fyrirtækja, stórfyrirtækja eins og Sementsverksmiðjunnar og líka stórra íslenskra alþjóðlegra fyrirtækja eins og Marels og Össurar. Innri vöxtur þeirra á að geta orðið allur hér á Íslandi ef hægt er að skapa stöðugleika og stefnu inn í framtíðina. Hvað vilja þessi fyrirtæki? Jú, þau vilja stöðugt gengi, þau vilja nýjan gjaldmiðil, þau vilja stefna á Evrópusambandið, og ég vil stefna þangað (Forseti hringir.) með þeim. Ég held að það sé það sem skiptir verulega miklu máli fyrir sköpun starfa í þeim fyrirtækjum sem fyrir eru.