136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:35]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Við fjöllum nú um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands við 3. umr. Í upphafi máls míns vil ég víkja örlítið að því að hlutverk þeirra umræðna sem fara fram í þinginu og þeirra nefndastarfa sem eiga sér stað á milli umræðna hlýtur að vera að reyna að upplýsa mál eins vel og hægt er, reyna að vinna mál þannig að þingið komist að sem skynsamlegastri niðurstöðu. Mjög oft gerist þetta með þeim hætti að verulegar breytingar verða á þeim frumvörpum sem hingað koma og oftast nær til bóta, skulum við vona, en stöku sinnum kemur það fyrir að inn í frumvörp slæðast villur eða mistök á síðustu stigum og er það hlutur sem þingmenn og þingnefndir hljóta að reyna að varast.

Við erum í þeirri stöðu frá því að mál koma inn í þingið og þangað til að þeim er lokið með síðustu atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. að reyna að bæta málin, reyna að tryggja vandaða umfjöllun um þau og komast að sem faglegastri og málefnalegastri niðurstöðu.

Þetta nefni ég vegna þess að auðvitað er svolítið önnur staða uppi í dag en var við lok 2. umr. (Gripið fram í.) Hún er sú að bæði hafa komið fram ný gögn í málinu og eins hafa komið fram breytingartillögur og er tilefni til þess að ræða þær sérstaklega. Ég vil samt áður en ég fer út í að ræða þessi einstöku atriði sem hljóta að koma til sérstakrar skoðunar við 3. umr. víkja í örstuttu máli að málsmeðferð í þessu máli og vil til að byrja með, án þess að eyða í það mörgum orðum, ítreka það sjónarmið sem kom fram við 1. umr. af hálfu okkar sjálfstæðismanna að frumvarpið sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram var fullkomin hrákasmíð, unnin í fljótræði og ekki á vetur setjandi, hvorki hvað varðar undirbúning né efni.

Viðskiptanefnd tók málið eftir 1. umr. og vann að mörgu leyti vel í málinu. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar, Álfheiði Ingadóttur, fyrir margt gott sem gerðist í því starfi. Það var auðvitað um það að ræða að mjög stuttir frestir voru gefnir fyrir umsagnaraðila, tveir sólarhringar og síðan var aðeins framlengt í tilviki þeirra sem eftir því óskuðu, en tímafrestirnir voru samt skammir og náttúrlega mikið frávik frá því sem venja er í þinginu. Hins vegar er líka gagnrýnisvert að meiri hluti nefndarinnar skyldi á þeim tíma hafna þeirri ósk sem kom fram hjá okkur sjálfstæðismönnum um að leitað yrði umsagnar Evrópska seðlabankans um frumvarpið því að nefndinni höfðu borist skilaboð frá bankanum um að hann væri reiðubúinn að veita umsögn. Við töldum að það væri verulega mikill ávinningur af því að heyra þessi sjónarmið, en ekki var á það hlustað á því stigi málsins. Við teljum að það sé galli.

Að öðru leyti vil ég segja að fjölmargar athugasemdir komu fram af hálfu umsagnaraðila og þeirra gesta sem komu á fundi nefndarinnar. Þetta voru athugasemdir sem lutu að flestum efnisatriðum upphaflega frumvarpsins og það verður að segja viðskiptanefnd til hróss, og það á við um alla sem þar sitja, að nefndin tók mið af mjög mörgum þessara ábendinga og stóð saman að breytingartillögum sem urðu til þess að gera frumvarpið mun betra. Ég tel þann þátt málsins og málsmeðferðarinnar hafa verið afar góðan og til fyrirmyndar.

Málið var áfram rætt við 2. umr. og þar sem við sjálfstæðismenn töldum það ekki fullrætt og það væru fleiri fletir sem þyrfti að skoða á því, óskuðum við eftir að það gengi til nefndar milli 2. og 3. umr. eins og orðið er algengt, sérstaklega eftir breytingu á þingsköpum í fyrravetur. Þar komu m.a. inn upplýsingar, eins og hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir áðan, um þá skýrslu sérfræðinganefndar Evrópusambandsins sem hún vísaði til og fjallaði ágætlega um. Það var ósk okkar og reyndar annars fulltrúa Framsóknarflokksins líka að beðið yrði eftir niðurstöðum þeirrar skýrslu áður en haldið yrði áfram með málið.

Eins og formaður gerði grein fyrir var skýrslan lögð fyrir í hádeginu í gær, þá var hún kynnt opinberlega og nefndin fékk hana í hendur á sama tíma og hún var kynnt opinberlega suður í Evrópu. Allt er það gott. Á hinn bóginn gagnrýndum við það að nefndarmönnum skyldi einungis gefast hálfur dagur til að kynna sér efni þessarar skýrslu vegna þess að hún er viðamikil og með mörgum efnisatriðum. Það var augljóst að sá tími sem formaður gerði tillögu um, milli kl. hálfeitt og sex, mundi ekki duga til að kynna sér efni skýrslunnar, sérstaklega í ljósi þess að þingstörf voru hér á fullu, bæði þingfundir, þingflokksfundir og aðrir fundir sem þingmenn þurfa að sitja. Við mótmæltum því að funda skyldi jafnfljótt um málið aftur og raun bar vitni og gerðum við það ítrekaðar athugasemdir. Á þær var ekki hlustað.

Þegar við mættum til fundar í gærkvöldi, kl. sex, töldum við að þá gæfist kostur á því að fara yfir og ræða efni skýrslunnar sem hafði verið lögð fyrir í hádeginu. Það var auðvitað misjafnt hvort nefndarmenn höfðu haft tök á að kynna sér efni hennar en menn voru aðeins komnir af stað. Í stað þess að fara í umræður um efni þessarar skýrslu sem beðið hafði verið eftir, og er merkileg skýrsla eins og hv. formaður nefndarinnar gat um, var af hálfu fulltrúa Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna skellt á borðið þegar í upphafi fundar breytingartillögu við frumvarpið sem sögð var byggja á einhverjum atriðum úr skýrslunni, sem reyndar voru mjög ótilgreind, og eftir það var ekki gefinn kostur á annarri umræðu en í rauninni ítrekuðum mótmælum af hálfu okkar sjálfstæðismanna við því að málsmeðferð væri með þessum hætti.

Þetta atriði vorum við afar ósáttir við og þess vegna verð ég að segja að málsmeðferðin í þessu máli byrjaði afar illa, byrjaði í klúðri af hálfu hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar og að mínu mati endaði hún í klúðri af hálfu viðskiptanefndar þó að hún stæði sig vel milli 1. og 2. umr. Var í rauninni sorglegt að málið skyldi enda með þeim hætti í nefndinni vegna þess að lengst af var vinnan þar málefnaleg og góð. Nóg um það.

Það er ljóst, og mér finnst rétt að árétta það við þessa umræðu, að við sjálfstæðismenn höfum frá upphafi lagt á það áherslu að við værum tilbúnir til að taka þátt í breytingum á löggjöf um Seðlabankann. Við höfum reyndar lýst því yfir opinberlega í langan tíma, en lítið hafði þokast í þeim efnum. Við töldum mikilvægt að skoða löggjöf um Seðlabankann og raunar aðrar þær stofnanir sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna á fjármálamarkaði í ljósi þess fjármálahruns sem hér varð í haust. Við töldum eðlilegt að þegar farið yrði út í breytingar á seðlabankalögunum væru málin skoðuð með það í huga hvernig efla mætti og styrkja stöðu þessarar stofnunar og annarra stofnana sem hafa skyldu eða hliðstæðu hlutverki að gegna, það þyrfti að skoða verkaskiptingu milli þeirra, hugsanlega sameiningu eða a.m.k. sameiningu verkþátta. Það þyrfti líka að huga að því hvaða tæki þessar stofnanir hefðu til að framfylgja þeim markmiðum sem þeim eru falin með lögum.

Þetta er (Gripið fram í.) nálgun sem er mjög í anda þeirrar skýrslu Evrópusambandsins sem hér hefur verið vitnað til og er mjög mikilvæg skýrsla. Af okkar hálfu hefur nálgun við málið verið með sama hætti og þessi sama sérfræðinganefnd gerði. Það hafa verið okkur vonbrigði að við höfum ekki komist áleiðis með þá umræðu innan nefndarinnar. Þó að vissulega hafi gestir verið spurðir út í slíka þætti og það verið lítillega rætt teljum við að sjónarhornið í starfi nefndarinnar, sérstaklega af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, hafi frá upphafi verið allt of þröngt. Sjónarhornið hjá þeim hefur frá upphafi beinst að einhverjum breytingum á skipuriti í yfirstjórn Seðlabankans en aðrir þættir sem vissulega þurfa á breytingum og úrbótum að halda hafa ekki verið teknir inn í. Það höfum við gagnrýnt við allar umræður þessa máls og ég vil halda þeirri gagnrýni til haga við þessa umræðu líka.

Ég held að það hefði verið til mikils gagns ef nefndin hefði getað fyrir 3. umr. gefið sér tíma til þess að fara betur yfir skýrsluna frá sérfræðinganefnd Evrópusambandsins. Ég hefði talið til bóta að við gætum tekið efnislega umræðu um þau atriði sem þar koma fram, en ekki væri hlaupið til þess að afgreiða málið út úr nefndinni svo að segja í beinu framhaldi af því að skýrslan kom á borð nefndarmanna. Ég hefði talið að það væri mun betri málsmeðferð.

Hið sama vil ég segja um þá breytingartillögu sem formaður nefndarinnar, hv. þingmaður, gerði grein fyrir áðan. Sú breytingartillaga snýr að verulegum breytingum í mínum huga á stöðu og hlutverki peningastefnunefndar. Að svona tillaga komi fram í nefndinni kallar auðvitað á að fengið sé álit einhverra sérfræðinga, ekki endilega — við erum ekki að biðja um skýrslur, við báðum ekki um langan tíma, við báðum bara um að við fengjum fyrir nefndina einhverja sérfræðinga sem gætu tjáð sig um efni þessarar breytingartillögu, hvernig hún félli að lögunum um Seðlabankann og hvernig hún mundi virka í framkvæmd. Ég hygg að það sé okkur sameiginlegt, nefndarmönnum, þó að nefndarmenn í viðskiptanefnd séu einstaklega góður hópur manna, að við erum að sjálfsögðu ekki sérfræðingar í málefnum seðlabanka, við erum ekki sérfræðingar í seðlabankalöggjöf. Þess vegna hefði verið mikið gagn fyrir okkur þegar efnisleg breyting er lögð til á þessu stigi málsins að heyra þótt ekki væri nema í einum eða tveimur sérfræðingum til að fá álit á þessu máli.

Ég held að það hefði orðið miklu gagnlegri og málefnalegri málsmeðferð og ég held að því hefði verið hægt að koma við án þess að verulegar tafir yrðu á starfi nefndarinnar. Það var auðvitað það atriði sem meiri hluti nefndarinnar hafði áhyggjur af, um var að ræða heimatilbúið tímahrak sem flokkarnir, einkum ríkisstjórnarflokkarnir, hafa búið sér til í þessu máli frá upphafi sem í þessu tilviki er að mínu mati algjörlega á kostnað vandaðrar málsmeðferðar.

Varðandi þessa breytingartillögu efnislega vil ég segja að hún felur það í sér að peningastefnunefnd skuli meta það svo að ef alvarleg hættumerki eru til staðar sem ógni fjármálakerfinu skuli hún gefa út viðvaranir opinberlega þegar tilefni er til. Ég tel að í þessu felist veruleg breyting, eins og ég sagði áðan. Peningastefnunefnd hefur eðli málsins samkvæmt það hlutverk að ákveða peningastefnu, framfylgja peningastefnu, fyrst og fremst með ákvörðunum um vexti. Þarna er verið að fela henni hlutverk sem snýr að eftirliti og aðgerðum í kjölfar mats á fjármálastöðugleika sem er annað verkefni, verkefni sem er vissulega mikilvægur þáttur í starfi seðlabanka en er annað verkefni en að marka peningastefnuna. Þarna strax er um að ræða ákveðna eðlisbreytingu á stöðu og hlutverki peningastefnunefndar og það vekur spurningar. Það eru spurningar sem ég get ekki svarað á þessu stigi og hefði verið gagnlegt að heyra sjónarmið sérfræðinga um hvernig eigi að forma og móta þær opinberu viðvaranir sem vísað er til í greininni.

Það er auðvitað um það að ræða að seðlabankar, og Seðlabanki Íslands þar á meðal, hafa ákveðnar skyldur varðandi umsagnir um fjármálastöðugleika og gefur út skýrslur í þeim tilgangi. Í ýmsum ritum og tilkynningum frá bankanum er getið um slíka þætti. Það hefði verið gott að fá mat á því hvort þarna væri einvörðungu verið að árétta þá skyldu sem vissulega hvílir á Seðlabankanum nú þegar, ekki peningastefnunefnd heldur Seðlabankanum sem slíkum, hvort bara væri um að ræða áréttingu á þeim hlut sem hefði gert þetta tiltekna atriði óþarft eða hvort þarna er um einhverja eðlis- og stefnubreytingu að ræða.

Ég held að það hefði verið hollt fyrir þessa ágætu nefnd, viðskiptanefnd, að gefa þessu meiri gaum og gefa sér betri tíma til að fara yfir þetta, skoða að hvaða leyti þetta fellur inn í löggjöfina og hver áhrif þetta hefur.

Ég lýsti eftir því í nefndinni í gær hvort menn vissu til þess að sambærilegt ákvæði um hlutverk peningastefnunefndar væri til í löggjöf einhvers seðlabanka í heiminum. Enginn gat svarað því. Ég spurði hvort þetta væri byggt á einhverri fyrirmynd. Ef einhver hv. þingmanna veit um dæmi þess að sambærilegt ákvæði um hlutverk peningastefnunefndar varðandi fjármálastöðugleika sé í löggjöf seðlabanka einhvers annars ríkis bið ég viðkomandi að gefa sig fram og veita mér þær upplýsingar. Það hefði verið gagnlegt að fá þær upplýsingar í nefndinni, en ef þær koma fram við þessa umræðu skal ég taka mark á því.

Ég sagði að það hefði verið gagnlegt fyrir okkur að fá álit sérfræðinga. Nú áðan birtist á vef Viðskiptablaðsins stutt viðtal við Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics, um þetta atriði, mann sem hefði verið gagnlegt að heyra í eða einhverjum sambærilegum fræðimanni á þessu sviði. (ÁI: Hver á Viðskiptablaðið? ) Það veit ég ekki (Gripið fram í.) en Jón Daníelsson er fræðimaður sem víða er vitnað til. Orð hans hafa gildi á þessu sviði, hvort sem menn eru sammála þeim eða ósammála. Þess vegna, hæstv. forseti, ætla ég að vitna í það sem Jón Daníelsson segir. Hann segir í þessu samtali við Viðskiptablaðið, með leyfi forseta:

„„Til að geta sinnt þessu hlutverki [þ.e. því hlutverki sem breytingartillagan gerir ráð fyrir] þarf nefndin að hafa aðgang að upplýsingum sem hún öllu jöfnu hefur ekki og þannig hefði [hún] ekki allar forsendur til að meta hættumerki,“ segir Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að mögulega sé nefndin að stíga inn á svið sem Seðlabankinn, eða öllu heldur sérfræðingar bankans eigi öllu jafna að sinna, þ.e. að meta hættuna í fjármálakerfinu og fylgjast með því dag frá degi.

„Við þetta breytist hlutverk nefndarinnar til muna,“ segir Jón og bætir því við að í framhaldinu muni þeir einstaklingar sem sæti eiga í nefndinni öðlast persónulega ábyrgð á hlutverki sem embættismenn Seðlabankans ættu öllu jafna að bera.

„Ákvarðanataka um peningamálastefnu er mikilvægt hlutverk,“ segir Jón.

„Það að íþyngja þeim aðilum sem sitja í henni með óskyldu upplýsinga- og viðvörunarhlutverki verður bara til að draga úr skilvirkni nefndarinnar.““

Ég ætla ekki að leggja mat á þessi orð Jóns Daníelssonar en mér finnast hins vegar þessi ummæli og hugsanlega svipuð sjónarmið frá einhverjum mönnum sem nefndin hefði kallað fyrir sig vera þess virði að um þau sé hugsað, að ekki sé bara vaðið áfram, málið afgreitt út umræðulítið og hugsunarlaust án þess að leiða hugann að því hvað menn samþykkja. Það hefði verið mikilvægt að fá álit sérfræðinga, hugsanlega mismunandi álit sérfræðinga, til að komast að einhverri niðurstöðu í þessu máli. En það var enginn tími til þess vegna þess að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafa sjálfir búið sér til tímahrak í þessu máli, tímahrak sem gerir það að verkum að það er ekki hægt að viðhafa vönduð vinnubrögð.

Ég ætla ekki að ræða þennan þátt frekar. Ég árétta bara að þarna held ég að hv. viðskiptanefnd, þ.e. meiri hluti hennar, hafi farið verulega út af sporinu í málinu og það hafi leitt til þess að vinnan við frumvarpið verður ekki eins vönduð og málefnaleg og hefði getað orðið. Ég óttast að allt þetta mál, aðdragandi þess og hugsanlega sú niðurstaða sem þingið mun komast að í dag, verði ekki til þess fallið að auka trúverðugleika Seðlabankans eins og þó er stefnt að með frumvarpinu. Ég held að það sé a.m.k. verulegt umhugsunarefni hvort það óðagot og taugaveiklun sem hefur einkennt meðferð þessa máls í upphafi og nú í lokin séu til þess fallin að auka trúverðugleika Seðlabankans. Ég held ekki.

Mig langar í þessu sambandi til að vitna í bréf sem Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, skrifaði til viðskiptanefndar þegar málið var þar til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. Ég held að í orðum hans felist mjög málefnalegar ábendingar og athugasemdir og svo ég drepi nú niður í ummælum hans segir hann framarlega í bréfi sínu, með leyfi forseta:

„Fyrst vil ég þá minna á að upphafleg lagasetning um Seðlabankann og allar veigamiklar breytingar á lögunum síðan hafa verið rækilega undirbúnar og um þær hefur því ætíð náðst þverpólitísk samstaða á þingi. Ekki má vanmeta mikilvægi þess að sátt sé um skipulag sjálfstæðrar stofnunar eins og Seðlabankans sem taka þarf vandasamar og misvinsælar ákvarðanir í efnahagsmálum. Ég hvet því nefndina [þ.e. viðskiptanefnd] til að vanda sem best til verksins og byggja niðurstöður sínar á sem bestum upplýsingum um reynslu annarra þjóða á þessu sviði.“

Þetta eru orð þess manns sem mesta reynslu hefur á Íslandi á starfsemi seðlabanka. Engin af þessum ábendingum hans er í samræmi við meðferð málsins af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og mér finnst að þeir hv. þingmenn sem að þessu hafa staðið hljóti að hugsa sig um og spyrja sig hvort þeir hefðu hugsanlega getað staðið betur að verki.

Jóhannes segir síðan — hann vísar reyndar til þess að sér hefði þótt sérlega mikilvægt að fá umsögn Seðlabanka Evrópu, bæði vegna mikilla tengsla Íslands við ESB og lykilstöðu hans í peningamálum í okkar heimshluta. Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið endurskoðunar á lögum Seðlabankans nú hlýtur að vera að auka traust á íslenskum efnahagsmálum. Með því að vanda til verka og leita ráðgjafar þeirra sem best geta metið áhrif lagasetningarinnar á trúverðugleika bankans verður helst tryggt að þessu markmiði verði náð, ella gætu áhrifin orðið gagnstæð því sem að er stefnt.“

Þetta finnst mér að hljóti líka að vera verulegt umhugsunarefni fyrir þá hv. þingmenn sem virðast ætla að ganga frá frumvarpinu með þeim hætti sem hv. formaður viðskiptanefndar gerði grein fyrir áðan.

Jóhannes sér þó jákvæðan flöt á málinu og er rétt að geta þess líka. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ekki fer á milli mála að frumvarpið er í upphafi mjög af vanefnum gert og er þakkarvert að meiri hlutinn hefur þegar lagt fram breytingartillögur sem bæta nokkuð úr alvarlegustu vanköntum þess. Enn virðist mér þó þörf á mun rækilegri umfjöllun um meginatriði þess, þótt ég hafi á þessari kvöldstund hvorki tíma né aðstöðu til að leggja þar mikið til mála.“

Þá nefnir hann sjónarmið varðandi hugsanlega tvo aðstoðarbankastjóra og síðan nefnir hann vangaveltur um peningastefnunefndina og í niðurlagi þess kafla segir hann, með leyfi forseta:

„Skilgreining á valdsviði peningastefnunefndar virðist mér einnig þurfa að vera skýrari en felst í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hluta viðskiptanefndar, ella getur skapast óvissa um gildi einstakra ákvarðana bankans.“

Allt eru þetta umhugsunaratriði.

Til að lengja þessa ræðu ekki frekar vil ég í örstuttu máli gera grein fyrir þeirri breytingartillögu sem minni hluti viðskiptanefndar leggur hér fram við 3. umr. Hún hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skal forsætisráðherra, er hann skipar seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra í fyrsta sinn eftir gildistöku laga þessara, leita staðfestingar Alþingis á skipan þeirra.“

Meginreglan verður eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, að forsætisráðherra skipi seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra að lokinni auglýsingu og meðferð hæfisnefndar eða matsnefndar og þannig gildi það framvegis. Eins og fram kom í nefndaráliti okkar í minni hlutanum við 2. umr. og eins og hv. þm. Árni M. Mathiesen fór ítarlega yfir við 2. umr. teljum við að það sé varasamt hve mikið vald forsætisráðherra verður falið við upphaf þessa máls vegna þess að í framtíðinni er gert ráð fyrir að menn séu skipaðir á mismunandi tímum, fulltrúar í peningastefnunefnd og bankastjórar. Þannig verður ekki um það að ræða að allir hljóti skipan á sama tíma eða frá sama forsætisráðherra ef út í það er farið. Völd þess forsætisráðherra sem skipar í fyrsta sinn eru, miðað við frumvarpið, afar mikil. Til þess að dempa það vald forsætisráðherra leggjum við til að forsætisráðherra þurfi að bera ákvörðun sína undir þingið og teljum að það geti verið til þess fallið að skapa meiri sátt og traust við upphaf málsins.

Að öðru leyti vísa ég til þeirra sjónarmiða sem komu fram við 1. og 2. umr. Við teljum að málið sé skilgreint of þröngt og það hefði þurft að skoða það í víðari skilningi. Við gagnrýnum ákveðna þætti í málsmeðferðinni og lok málsins í viðskiptanefnd harðlega og teljum að frumvarpið sé í rauninni að enda sinn feril hér í þinginu með afar dapurlegum hætti því að um tíma leit út fyrir það í nefndarstarfinu að það mundi færast að einhverju leyti til betri vegar.