136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá er munurinn á mér og hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að ég var ekki á þingi árið 2001 þegar núgildandi lög um Seðlabanka voru samþykkt. (Gripið fram í: Það hefði mátt leggja fram tillögu til breytinga.) Ég veit ekki til þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi greitt atkvæði gegn því frumvarpi. (LB: Hvenær var síðasti seðlabankastjóri ráðinn? Hv. þingmaður sat þá á þingi.) (Forseti hringir.) Já, já, en ég hef ekki, eins og hv. þingmaður veit, tekið þátt í neinum breytingum á lögum um Seðlabankann, ólíkt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni sem stóð að þeirri breytingu eins og reyndar þingmenn úr öllum flokkum gerðu árið 2001 þegar núgildandi lög um Seðlabankann og þar á meðal um skipun seðlabankastjóra voru ákveðin. Þá t.d. var ákveðið að hætta að auglýsa stöðurnar því að þær höfðu verið auglýstar áður. Það voru færð fyrir því rök í þeirri skýrslu sem lá til grundvallar lagabreytingunni 2001 hvers vegna það var gert. Nú er verið að fara til baka, við höfum að þessu leyti gild rök fyrir því. Ég styð þau, ég styð það ferli sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, um auglýsingu, um að hæfisnefnd fari yfir umsækjendur. Það eru nýmæli og það eru nýmæli sem ég styð.

Ég bendi einfaldlega á þá stöðu sem er hér í fyrsta sinn, að sami forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra, sem báðir eiga sæti í peningastefnunefnd, síðan aðra tvo í peningastefnunefnd og … (LB: Hver skipaði þessa þrjá?) Það voru, hv. þingmaður fyrst þú kallar fram í, mismunandi menn á mismunandi tímum sem skipuðu þá menn sem nú sitja í Seðlabankanum. Alltaf forsætisráðherra (LB: En alltaf forsætisráðherra. Rétt.) en það er ekki lögmál að forsætisráðherra sé alltaf sami maðurinn eða úr sama flokki eins og dæmi eru um.