136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:32]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði að gefnu tilefni um misbeitingu framkvæmdarvaldsins vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar þar sem ekki var annað hægt að skilja af ræðu hans en að hann teldi að framkvæmdarvaldið hefði með óeðlilegum hætti blandað sér í starfsemi þingsins. Það var þess vegna sem ég spurði um það atriði.

En það er kannski ekki höfuðatriði þess sem ég vil hér ræða, heldur það að lögð er fram breytingartillaga sem hv. þingmaður mælir með og er til komin vegna afstöðu hans þar sem hann vísar í töluliði 170 og 171 í þeirri skýrslu sem þar er um að ræða og talar um að einmitt þar sé talað um að það eigi að gefa út opinberar viðvaranir. Í þessum tveimur töluliðum kemur hins vegar hvergi fram neitt um að það beri að gefa út opinberar viðvaranir af hálfu seðlabanka, viðvörun opinberlega sem almennt þá viðgengst. Það er hvergi vikið að því.

Í skýrslunni er hins vegar vikið að því með hvaða hætti skuli brugðist við. Það er gert á ákveðnum stigum, með ákveðnum fyrirvörum og ákveðnum formlegum hætti. Þess vegna spyr ég hv. þm. Höskuld Þórhallsson hvort hann hafi ekki kynnt sér það áður en hann gekkst fyrir og samþykkti þá tillögu sem hér er lögð fram sem breytingartillaga hvaða raunverulegu tillögur koma fram í þessari skýrslu sem hann vísaði til, um hvaða aðferðafræði skuli viðhöfð hvað það varðar. Til að auðvelda þingmanninum ætla ég að benda honum á að það er fjallað um það í tölulið 180 í skýrslunni.