136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um ráðherraræði. Undanfarna daga hefur hæstv. forsætisráðherra aftur og aftur talað eins og það sé búið að samþykkja frumvarpið sem hv. nefnd er að fjalla um, síðast í Morgunblaðinu í gær þar sem hún talaði um að þegar fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi sé æskilegt og eðlilegt að það sé ekki fráfarandi stjórn — sem er á förum úr bankanum — sem ræði við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, heldur aðalbankastjóri og varabankastjóri sem verði þá skipaðir í einhvern tíma.

Það er búið að samþykkja lögin í huga hæstv. ráðherra, og Alþingi algerlega óþarft. Ég spyr hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt að hann sé í rauninni bara að stimpla eitthvað frá hæstv. ráðherranum?

Svo vil ég spyrja um þessa breytingartillögu sem er að finna í þskj. 591. Þar er einmitt talað um að það eigi að gefa opinberlega út viðvaranir þegar tilefni gefst til. Og ég spyr hv. þingmann hvort hún sé frá honum komin. Stendur hann ekki alveg einhuga á bak við þessa tillögu og kemur hún fram að hans frumkvæði?