136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:39]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo að hann sé sammála mér um að það ráðherraræði sem hefur verið við lýði á undanförnum árum sé nokkuð sem við þurfum að breyta. Ef hæstv. forsætisráðherra hefur talað þannig að það sé þegar búið að samþykkja þetta frumvarp er það algjörlega ólíðandi að mínu mati. Það er einmitt hlutverk okkar þingmanna að standa í lappirnar og láta ekki framkvæmdarvaldið komast upp með það að stjórna þessu þingi.

Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal hefur gert það í gegnum tíðina, hann hefur fylgt eigin sannfæringu. Það ætla ég mér líka að gera og hef gert hingað til.

Varðandi þessa tillögu fór ég yfir hana eins og aðrir nefndarmenn eftir að við fengum skýrsluna. Ég rakst fljótlega á hana vegna þess að ég skoðaði efnisyfirlitið og sá þar kafla sem í voru tillögur um hvernig mætti styrkja kerfið og kom með þá tillögu að við mundum kannski skoða þetta og bar það undir meiri hluta nefndarinnar, að sjálfsögðu.

Þannig er þessi breytingartillaga til komin og þetta á að koma í veg fyrir það að þegar við lendum í krísu eins og við erum í núna, íslenska þjóðin, geti menn komið fram eftir á og sagt: Ja, við aðvöruðum ykkur. Á móti geta stjórnvöld heldur ekki komið fram og sagt: Ja, við vissum ekki neitt, okkur var ekkert tilkynnt. Það er verið að efla sjálfstæði Seðlabankans þannig að þegar hann sér hættumerkin koma sem snerta allt fjármálakerfið í heild sinni (Forseti hringir.) beri honum skylda til að bregðast við.