136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir vænt um að heyra að hv. þingmaður stendur með mér gegn ráðherraræðinu og flokksræðinu sem ég hef lengi barist gegn. Ég vil minna hann á að þessi ríkisstjórn er minnihlutastjórn sem nýtur stuðnings Framsóknarflokksins, flokks hv. þingmanns. Hann þarf þá að láta í sér heyra þegar hæstv. forsætisráðherra er aftur og aftur undanfarna daga og vikur búin að tala eins og það sé búið að samþykkja þetta frumvarp sem lög. (Gripið fram í.)

Svo varðandi þessa breytingartillögu, hún er eins og maður sé á ferðalagi með handfarangur og síðan er sett í handfarangurinn sprengja sem springur við minnsta rask. Í erlendu tillögunum sem ég les hérna er sagt að það eigi að senda hana þangað sem þörf er á en ekki út um allt, ekki opinberlega.

Það þýðir að ef minnsta rask verður einhvers staðar í fjármálakerfinu á að tilkynna það — og hvað gerist þá? Fjármálakerfið springur. Minnsti sparisjóður lendir í vandræðum og það á að segja: Þessi sparisjóður er í vandræðum. Opinberlega. Og hvað gerist? Það verða meiri vandræði hjá honum, það verður keðjuverkun í öllu kerfinu og það springur. Kerfið mundi springa reglulega með þessari aðferð og ég vara menn eindregið við því að þessar tilkynningar fari þangað sem þeirra er ekki þörf. Þær eiga ekki að birtast opinberlega. Það er bara verið að setja sprengju í handfarangurinn.