136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er nú kannski til merkis um það hversu mikla virðingu ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýna Seðlabanka Íslands, frumvarpinu um hann, og því umræðuefni sem hér er til umfjöllunar að ekki er einn ráðherra í ríkisstjórninni viðstaddur.

Hér í þingsalnum, þegar við ræðum þetta mál við 3. umr., er staddur einn þingmaður frá stjórnarmeirihlutanum. Það er hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar, sem er hér af skyldurækni. (ÁI: Tali nú hver fyrir sig.) Það er sorglegt, svo að ég fái nú að halda orðinu fyrir frammíköllum frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, sem virðist aldrei geta leyft þingmönnum, sem hafa orðið, að tala í friði — ef ég get beðið hæstv. forseta um að biðja hv. þingmann um að hafa sig hægan meðan ég fjalla hér um þetta mál þá væri það vel þegið.

(Forseti (RR): Hv. 8. þm. Reykv. n. Sigurður Kári Kristjánsson hefur orðið.)

Það væri óskandi að forustumenn ríkisstjórnarinnar væru viðstaddir umræðu um þetta mikilvæga mál. Við höfum horft fram á það að fjármálakerfið okkar hefur hrunið og til stendur að reyna að endurreisa það, bæði bankakerfið og alla umgjörð fjármálakerfisins. En því miður sýna hæstv. ráðherrar málinu ekki meiri áhuga en svo að þeir eru ekki viðstaddir umræðuna.

Ég hef viljað ræða þetta mál um Seðlabankann efnislega. Því miður hefur það verið þannig, bæði hér innan þingsins og utan, að menn hafa nálgast umræðu um framtíð Seðlabankans á persónulegum og pólitískum nótum frekar en að reyna að vanda sig við að ræða málið málefnalega. Öll vinnubrögð í tengslum við þetta mál hafa borið þess merki. Það hefur komið niður á vinnslu málsins. Við verðum að sýna þann þroska og þá ábyrgð, þeir sem sitja hér á þingi, að reyna að ræða málið efnislega og reyna að gera það sem best úr garði þannig að þau ákvæði og þær reglur sem þar koma fram gangi upp.

Ég sagði hér við upphaf 1. umr. um frumvarpið að málið væri óvandað og illa unnið. Við 3. umr. þessa máls hefur meiri hlutinn í hv. viðskiptanefnd lagt fram breytingartillögu við frumvarpið sem kemur í kjölfar fjölmargra breytingartillagna við frumvarpið sem meiri hlutinn lagði til við 2. umr. Þá var frumvarpið í rauninni endurskrifað. Það var í sjálfu sér staðfesting á því sem við höfðum haldið fram, hvað svo sem menn segja um yfirstjórn bankans eins og hún er núna, eða þá framtíðarsýn sem þeir hafa, þá var sú vinna sem lögð var í þetta mál algerlega ófullnægjandi.

Nú hefur verið lögð fram breytingartillaga sem gerir þetta mál því miður verra. Mér finnst mjög miður að hæstv. ráðherrar séu ekki viðstaddir þá umræðu til þess að hlusta á athugasemdir mínar við breytingartillöguna. Ég tel að breytingartillagan hafi gríðarlega mikla þýðingu fyrir framtíðina, ekki bara fyrir Seðlabanka Íslands heldur líka fyrir fjármálakerfið. Okkur ber skylda til að fjalla um það efnislega, og með vönduðum og faglegum hætti, og það er lágmarkskrafa að þeir menn sem bera ábyrgð á málinu séu viðstaddir umræðuna. En þeir sem sitja hér uppi á áhorfendabekkjunum og líta yfir ráðherrabekkina sjá að þar er ekki einn ráðherra viðstaddur, sem er ótrúlegt.

Það er ótrúlegt og algjört einsdæmi, hygg ég, og hef ég nú vikið að því áður, að við þingmenn höfum ekki fengið tækifæri til að tala við höfunda frumvarpsins til að spyrja þá út í það hvaða sjónarmið hafi legið að baki við samningu þess. Við óskuðum eftir því að fá upplýst hverjir hefðu samið frumvarpið. Þau svör voru ekki veitt. Hæstv. forsætisráðherra játaði hér í ræðustólnum að leitað hefði verið til sérfræðinga en vildi ekki upplýsa okkur, sem var ætlað að fjalla um þetta mál, hverjir þeir sérfræðingar hefðu verið. Við fengum því ekki að kalla inn á fundi viðskiptanefndar þá aðila sem stóðu að samningu frumvarpsins.

Ég fullyrði, og hef ég nú setið hér í sex ár, að aldrei áður hafa menn sýnt af sér önnur eins vinnubrögð. Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin, sem hefur lagt mikla áherslu á fagleg vinnubrögð, að öll mál séu uppi á borðum og allt sé upplýst, hylur það einhverjum leyndarhjúp til hvaða manna var leitað við samningu frumvarpsins.

Við óskuðum líka eftir því að fá að vita hvaða fyrirmyndir voru hafðar til grundvallar við samningu frumvarpsins. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að þær fyrirmyndir hefðu legið frammi. En hún vildi heldur ekki upplýsa okkur í stjórnarandstöðunni um það hvaða fyrirmyndir þetta væru, svo að við hefðum getað vegið þær og metið í samræmi við það frumvarp sem við vorum að fjalla um.

Þetta er með miklum ólíkindum, frú forseti. Það er með algjörum ólíkindum að svona sé haldið á málum. Það er líka með miklum ólíkindum að þegar Seðlabanki Evrópu býðst til að veita lagalega umsögn um frumvarpið neiti meiri hlutinn í viðskiptanefnd því góða boði. Því var haldið fram í umræðum í nefndinni að við gætum allt eins leitað til Seðlabankans í Kína um umsögn. Það er ótrúlegt að hlusta á menn þegar þeir hafa sett sér einhver markmið og vilja keyra mál í gegn að þeir skuli geta lagst svo lágt að tala með þessum hætti.

Við erum að tala um Seðlabanka Evrópu sem er lykilseðlabankinn innan Evrópusambandsins. Íslenska fjármálakerfið byggist að miklum hluta til á regluverki Evrópusambandsins. Stjórnendur Seðlabanka Evrópu vita hvert stefnir í bankakerfinu og fjármálakerfinu í Evrópu eftir fjármálaþrengingarnar. Mikill fengur hefði verið í því að fá sjónarmið þeirra varðandi frumvarpið. Eftir því var óskað, það var boðið en því var neitað af hálfu fulltrúa Framsóknarflokksins, af hálfu fulltrúa Samfylkingarinnar og af hálfu fulltrúa Vinstri grænna. Ég verð bara að segja að ég skil ekki þessi vinnubrögð.

En nóg um það. Sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir, á þingskjali 591, er flutt af meiri hluta viðskiptanefndar, hv. þingmönnum Álfheiði Ingadóttur, Gunnari Svavarssyni, Lúðvíki Bergvinssyni, Höskuldi Þórhallssyni og Birki Jóni Jónssyni sem situr hér í salnum. Í breytingartillögunni segir:

„Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógna fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni er til.“

Þessi setning hljómar nú kannski ekki svo hættulega þegar hún er lesin ein og sér en ef menn setja hana í samhengi er um hættulegt skref að ræða fyrir íslenska fjármálakerfið í framtíðinni, það getur valdið geysilegum skaða verði þetta fært í lög. Ég ætla að skýra það aðeins út og setja það í samhengi við umræðu sem að undanförnu hefur átt sér stað í þjóðfélaginu.

Fyrir tveimur dögum var frægt viðtal við núverandi seðlabankastjóra í Kastljósi Sjónvarpsins, Davíð Oddsson. Þar lýsti seðlabankastjórinn því yfir að hann hefði allt frá árinu 2006 og jafnvel lengur varað ríkisstjórnina við því að blikur væru á lofti í fjármálakerfinu og hætta væri á að bankakerfið mundi hrynja ef menn gripu ekki til ráðstafana. Nú ætla ég ekki að halda því fram að viðbrögðin við þessum viðvörunarorðum hafi verið rétt eða að þau hafi verið röng. Seðlabankastjórinn lýsti þessu a.m.k. yfir og vísaði til gagna þar um, skýrslna sem hann hafði lagt fyrir ríkisstjórnina og fundargerða sem hann hafði í höndum.

Nú fylgjumst við með því í fjölmiðlum að þessi sami seðlabankastjóri er gagnrýndur fyrir að hafa ekki komið sömu viðvörunarorðum á framfæri í opinberri umræðu. Hann hafi sagt annað í viðtölum við fjölmiðla um stöðu bankakerfisins og styrk bankanna en hann sagði á fundum ríkisstjórnarinnar, á lokuðum fundum þar sem ummælin voru bundin þagnarskyldu.

Hvers vegna er þetta svo? Það er vegna þess að ef seðlabankastjórar, hvort sem þeir eru hér á Íslandi eða í öðrum löndum, gefa út yfirlýsingar um að bankakerfið muni hrynja verði ekki brugðist við þá munu bankakerfin hrynja daginn eftir. Ef seðlabankastjóri lýsir slíku yfir opinberlega leiðir það til þess að bankakerfið hrynur. Þess vegna geta seðlabankastjórar, stöðu sinnar vegna, ekki verið með sambærilegar yfirlýsingar í fjölmiðlum og þeir geta gert á lokuðum fundum með ríkisstjórninni. Þeim ber að koma slíkum skilaboðum á framfæri gagnvart stjórnvöldum en þeir mega ekki gera það opinberlega vegna þess að vægi slíkra yfirlýsinga fyrir fjármálakerfið, fyrir bankana og alla þá sem starfa á þessum markaði, er svo mikið að þær geta haft skelfilegar afleiðingar. Þess vegna þarf að fara öðruvísi í málin. Þetta skýrir það misræmi sem er á milli yfirlýsinga sem gefnar hafa verið annars vegar í fjölmiðlum og hins vegar á lokuðum fundum með stjórnarherrum.

Í breytingartillögunni er lagt til að nýju peningastefnunefndinni sé skylt — meti hún það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógni fjármálakerfinu — að gefa opinberlega út viðvaranir þegar tilefni er til. Ef þrengingar og hættumerki eru uppi í íslenska fjármálakerfinu eiga þeir sem eru í peningastefnunefnd að koma opinberlega fram og lýsa því yfir að á Íslandi sé allt í kalda koli.

Segjum nú, og setjum þetta í samhengi við breytingartillöguna, að bankarnir, sem nú eru allir í ríkiseigu, fari í eigu einhverra annarra í framtíðinni. Þeir verði gerðir að hlutafélögum og skráðir á opinberum markaði. Gefum okkur líka að bankarnir geti aftur fengið lán erlendis, sem þeir eiga í erfiðleikum með í dag. Þá er spurningin sú hvernig það lítur út ef peningastefnunefnd Seðlabankans er skylt að opinbera skoðun sína um það að hún telji að bankakerfið geti hrunið.

Það sem örugglega gerist er að hlutabréf bankanna hríðfalla við slíkar yfirlýsingar, erlendar lánalínur þorna upp og veðköll verða gerð og hugsanlega verða útistandandi lán til þeirra kölluð inn til greiðslu strax. Skyldan um yfirlýsingu um væntanlegt hrun er eins og sagt er „self fulfilling“. Þessi nýja grein getur falið í sér innbyggt banagen kerfisins. Ef í ljós kemur að peningastefnunefndin, sem ber skylda til þess að gefa slíkar yfirlýsingar, hefur síðan rangt fyrir sér þá er skaðinn samt sem áður skeður. Maður getur vel ímyndað sér að erlendir aðilar, sem hugsanlega vilja fjárfesta í bönkunum í framtíðinni, hljóti að hnjóta um þetta atriði þegar þeir fara að kynna sér málið.

Frú forseti. Ég fullyrði að þeir hv. þingmenn sem flytja þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir átta sig ekki á því hvað þeir eru að gera ef þeir ætlast til þess að hún verði samþykkt hér á þinginu. Þetta er stórhættuleg grein. Ef peningastefnunefnd verður skylt að gera það opinbert að hætta sé uppi á íslenskum fjármálamarkaði kann það að leiða til þess að hér verði annað bankahrun. Ég bið hv. þingmenn í meiri hluta viðskiptanefndar að endurskoða hug sinn. Frumvarpið var ekki burðugt þegar það var fyrst lagt fram, hvaða skoðanir sem menn hafa á yfirstjórn Seðlabankans, hvaða leiðir sem menn vilja fara við uppbyggingu fjármálakerfisins (Forseti hringir.) og stjórnskipulags Seðlabanka Íslands, en það frumvarp sem þá var gallað er nú orðið meingallað.