136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hnykkja á þessu atriði. Ég lét það koma fram í máli mínu áðan að ég teldi að hér væri verið að árétta og hnykkja á verkefni peningastefnunefndar. Ég er ekki sammála því sjónarmiði að um sé einhverja grundvallarbreytingu á frumvarpinu að ræða verði þetta ákvæði samþykkt. Ég tel að skynsamlegt sé að peningastefnunefndin gefi út viðvaranir ef hún metur tilefni til og ef hún metur að slík hættumerki séu til staðar sem ógni fjármálakerfinu.

Ég sagði líka í máli mínu, og ég undirstrika það, að þarna verður peningastefnunefndin að sjálfsögðu að meta þetta eins og lagatextinn gerir ráð fyrir hver þessi hættumerki eru. Hún á að sjálfsögðu ekki að framkvæma neitt það sem muni síðan ógna fjármálastöðugleikanum, af því að það fannst mér hafa komið fram í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og það var það sem ég var að bregðast við með orðum mínum áðan. Ég er þeirrar skoðunar að þetta ákvæði sem hér er sé fyrst og fremst til áréttingar og ekki sé verið að kollvarpa efni frumvarpsins með því að samþykkja þessa breytingartillögu.