136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson kvaddi sér hér hljóðs og ég þakka honum fyrir andsvarið. Ég held að það segi út af fyrir sig talsvert mikið um málefnalega stöðu framsögumanns Sjálfstæðisflokksins í málinu að hann kýs að tala um allt annað en um Seðlabankann og tala einvörðungu um þau frumvörp stjórnarinnar sem hafi komið fram. Ég verð þó að segja af reynslu minni af að mörgu leyti góðu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn sem þó reyndist ekki fær um að ljúka ákvörðunum og skila inn málum þegar nauðsyn krafði á síðari hluta síðasta árs, að það að skila hér inn níu málum á þeim tíma sem liðinn er frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hóf störf verð ég að segja að er mikill gangur og ég held að þar séu mjög mikilvæg mál, meðal annars um greiðsluaðlögunina, um séreignarsjóðina. Þá má hv. þingmaður ekki gleyma því að hér eru líka til umfjöllunar fjölmörg góð og gegn þingmannamál sem snúast um þann vanda sem við er að glíma og full ástæða er til þess að einbeita sér að hér.

Ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna kannski þessa tólf daga sem málið var í viðskiptanefnd. Ég er aðallega bara að gagnrýna að það skuli hafa tekið okkur tímann frá 6. október síðastliðnum og alla leið til dagsins í dag, 26. febrúar, að klára þessa mikilvægu forsendu fyrir endurskipulagningu á fjármálalífinu í landinu sem er endurskipulagning á yfirstjórn Seðlabankans, banka bankanna vegna þess að það er ekki fyrr en henni er lokið sem hægt er að fara að þjóna viðskiptabönkunum nægilega vel þannig að þeir geti aftur farið að þjóna atvinnulífinu nægilega vel og það getur haldið hér uppi atvinnunni sem er það mikilvægasta verkefni sem við höfum við að glíma. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sá langi tími sem liðinn er frá hruninu sem ég er fyrst og fremst að vísa til.