136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ástæða er til að vera að elta ólar við þetta. Ég held út af fyrir sig að staðreyndirnar tali sínu máli. Við getum litið til allra þeirra landa sem við kjósum að bera okkur saman við og hvergi hafa menn haft þennan háttinn á. Fyrir því eru efnislegar ástæður.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal þarf ekki að hafa áhyggjur af því að í þeim löndum hafi valist lakari einstaklingar eða verr menntað fólk til stjórnmálastarfa en hér á Íslandi. Ekkert bendir sérstaklega til þess að við hér á Alþingi séum betur menntuð og hæfari en þingmenn í öðrum þjóðþingum vegna þess að við eigum von á því að geta orðið aðalbankastjórar Seðlabankans að loknum störfum hér, það er a.m.k. ákaflega langsótt röksemdafærsla.

Ég held að við sem ung þjóð eigum núna fyrst og fremst að reyna, kannski í svolítilli auðmýkt, að horfast í augu við það sem við höfum ekki tekist á við á undanförnum árum og horfa á það hvernig aðrar þjóðir, okkur eldri og reyndari, hafa vegna reynslu sinnar af áföllum í gegnum aldirnar kosið að skipa málum. Við ættum að skoða þá menningu sem þær hafa þróað, m.a. um það að menn axli ábyrgð og um að seðlabankastjóri þurfi fyrst og síðast að vera faglegur og njóta trausts og trúnaðar fólks alls staðar í samfélaginu.