136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ósanngjarnt að demba þessum spurningum á hv. þingmann. Eins og kom fram hefur honum ekki gefist tími til að fara ítarlega yfir þá skýrslu sem nefndarmenn í viðskiptanefnd hafa lagt fram. Mig langar samt að segja honum að í ákvæðinu, eins og það hefur verið þýtt, segir að til þess að seðlabankar og þá sérstaklega Seðlabanki Evrópu geti sinnt hlutverki sínu í því að vernda fjármálalegan stöðugleika, ættu þeir að fá skýra og formlega heimild til að meta heildaráhættu í fjármálakerfinu og gefa út viðvaranir þegar þörf er á.

Þingmanninum var mjög tíðrætt um að það þyrfti að kalla málið inn í nefnd. Við höfum farið yfir þetta mál í þrjár vikur, fengið umsagnaraðila og unnið það faglega frá a til ö. Mig langar til að nefna nokkur mál frá því að Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn. Hér eru sjö mál: 119. mál um fjármálafyrirtæki, leyfisbundna starfsemi þrotabús, ekki sent formlega til umsagnar. Gjaldeyrismál, takmörkun gjaldeyrisviðskipta, ekki sent til umsagnar. Mál um embætti sérstaks saksóknara, rannsókn á fjárþroti fjármálafyrirtækja, ekki sent til umsagnar. Mál um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna, ekki sent til umsagnar. Mál um vexti og verðtryggingu, lækkun dráttarvaxta, ekki sent til umsagnar. Mál um eftirlaun forseta Íslands og alþingismanna, ekki sent til umsagnar. 248. mál, fjárhagsleg fyrirgreiðsla ríkissjóðs til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum, ekki sent til umsagnar. Hvernig getur hv. þingmaður sem var í ríkisstjórn, fyrir bara tveim mánuðum, komið fram og krafist þess að eyða fleiri dögum í þetta mál þegar þetta er það verklag sem hann og hans flokkur hefur staðið fyrir?