136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér til þess að taka upp hanskann fyrir meðnefndarmenn mína í hv. viðskiptanefnd sem og starfsmenn þingsins og þriggja ráðuneyta sem komið hafa að vinnu í þær þrjár vikur sem þetta frumvarp hefur verið til afgreiðslu. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur kannski ekki fylgst nægilega vel með umræðum um þessi mál eða atkvæðagreiðslu sem var á föstudaginn var. Honum til upplýsingar vil ég minna á að þetta frumvarp kom inn 4. febrúar og hefur því verið hér í ríflega þrjár vikur, eins og ég sagði.

Um það hefur verið fjallað á 9 eða 10 nefndafundum í hv. viðskiptanefnd. Á fund nefndarinnar hafa komið 25 einstaklingar, sumir oftar en einu sinni. Fyrir nefndinni lágu einar 18 umsagnir, að vísu mjög misjafnar að vöxtum en sumar hverjar mjög umfangsmiklar. Þessi vinna nefndarinnar leiddi til þess að gerðar voru nokkrar breytingar á málinu við 2. umr. og sú veigamest að sett var inn ákvæði um aðstoðarbankastjóra í Seðlabanka Íslands.

Bara svo hv. þingmanni megi vera það ljóst voru í þeim breytingartillögum ýmsar tillögur og hugmyndir sem komu frá samflokksmönnum hans í nefndinni, fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, enda var frumvarpið við 2. umr. afgreitt út með 50 samhljóða atkvæðum, 13 þingmenn voru fjarverandi.

Það segir sína sögu um það samráð sem var um vinnslu þess. Það þarf hins vegar engan að undra nú á lokametrunum að Sjálfstæðisflokkurinn segi sig frá málinu eins og hann hefur gert hér í dag og í gær.