136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður a.m.k. ekki upplýst í þessari umræðu hver skrifaði þetta frumvarp. Ég man ekki til þess að hafa gert lítið úr störfum eins eða neins í þessu efni. Ég man ekki betur en að ég hafi farið yfir það í þeim ræðum sem ég hef haldið hér að hv. viðskiptanefnd hafi reynt að gera það sem nefndin gat gert á þeim skamma tíma sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, er búin að fara yfir hversu skammur var. Ég veit ekki betur en að nefndarmenn hafi gert allt sem þeir gátu, í öllum flokkum.

Það var samt, virðulegi forseti, svolítið athyglisvert að hlusta á þetta andsvar vegna þess að um tíma datt hv. þingmaður nefnilega í gamla gírinn sem hv. þingmaður var með í stjórnarandstöðu þegar ég nefndi sjúkratryggingar. Það er rétt, málið kom seint fram og því var frestað að ósk stjórnarandstöðu fram á næsta þing. Ég man það rétt að stjórnarandstöðunni fannst það ekki nóg og hafði mörg orð um það, hv. þingmenn Vinstri grænna — að vísu eingöngu — að málið væri unnið á allt of miklum hraða. Hér erum við að tala um margra mánaða vinnu sem þingmenn gátu komið að og kynnt sér mál, meira að segja farið til annarra landa til að kynna sér þau, en nú allt í einu er það orðið algjörlega sjálfsagt að klára þetta mikilvæga mál á þrem vikum, og algjörlega sjálfsagt að kalla ekki eftir umsögnum hjá aðilum eins og Evrópska seðlabankanum.

Því miður liggur það fyrir að þetta er það sem hv. þingmenn Vinstri grænna tala um þegar þeir tala um fagleg vinnubrögð, gagnsæi og samráð.