136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra þá einkunn sem hann gaf mér sem stjórnarandstæðingi. Ég vona þó að það verði ekki örlög mín að vera í stjórnarandstöðu jafnlengi og fóstbróðir hans í fjármálaráðuneytinu þurfti að vera, í heil átján ár. Vonandi verða það ekki örlög mín.

Það er rétt að ráðherrar þurfa ekki að vera við umræður um frumvörp þegar þau eru komin á forræði þingsins. Þetta mál er hins vegar þess eðlis að ég hefði talið og taldi í dag að ráðherrarnir ættu að vera hér við umræðuna úr því að þetta er stjórnarfrumvarp og að þeirra mati lykilfrumvarp við endurreisn á fjármálakerfinu. Ég taldi því eðlilegt að þeir væru hér við umræðuna og tækju þátt í henni. En ég var að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að vera hér.

Það er ekki rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að ég geri einungis eina athugasemd við frumvarpið. Ég sagði í upphafi máls míns að málið eins og það er lagt fram — burt séð frá því sem hæstv. ráðherra vill tala um, sem eru einhverjar persónur sem sitja eða hafa setið annaðhvort í ríkisstjórn eða uppi í Seðlabanka, þá hef ég sagt að þetta mál er óvandað eins og það er lagt fram. En með breytingartillögunni sem við ræðum nú, sem hæstv. utanríkisráðherra kennir við hv. þm. Höskuld Þórhallsson, hefur óvandað frumvarp orðið enn verra. Ég hef áhyggjur af því að afleiðingarnar af þessu bráðabirgðaákvæði verði skelfilegar.

Það er ekkert í frumvarpinu eða í breytingartillögunni eða í því sem fram hefur komið hjá flutningsmönnum tillögunnar — engar vísireglur um það hvernig eigi að beita þessu ákvæði. Auðvitað skiptir máli að það sé gert af skynsemi. Hættan er sú að verði það ekki gert leiði það til þess að fjármálakerfið á Íslandi (Forseti hringir.) undir þessari reglu muni hrynja (Forseti hringir.) fari menn fram úr sjálfum sér í yfirlýsingum sem þessum. Af þessu hef ég stórkostlegar áhyggjur.