136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:11]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að standa vaktina fyrir ríkisstjórnina alla. Hann sagði að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson væri efnilegur og snarborulegur í stjórnarandstöðu og það sama er hægt að segja um hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur alla tíð verið efnilegur og snarborulegur, en það fer að koma tími á það að einhver breyting verði þar á.

En varðandi það sem hér er um að ræða og sérstaklega var gert að umræðuefni áðan, þ.e. með hvaða hætti frumvarpið varð til, þá lá fyrir að það var mjög illa unnið, kastað hafði verið til þess höndunum. Það gerði það að verkum að í viðskiptanefnd þurfti að eyða miklum tíma í að koma einhverri mynd á það. Hvað sýnir það og sannar? Nefndin þurfti að vinna meiri háttar breytingar til þess að frumvarpið kæmist þó í þokkalegt horf.

Það sem síðar gerist er með fádæmum, þ.e. það sem gerðist á fundi viðskiptanefndarfundi í gær. Fram kemur breytingartillaga og fyrir liggur að hún er borin fram af misskilningi. Eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gat um í umræðunni hér var tillaga hans og hugmynd byggð á misskilningi á skýrslunni sem hann hafði beðið eftir að yrði könnuð. Svo mikið lá á að ekki mátti bíða og ekki mátti virða tilmæli um það að menn fengju að kynna sér hlutina með eðlilegum hætti. Þetta eru fáheyrð vinnubrögð þegar um mál eins og þetta er að ræða. Það eru fáheyrð vinnubrögð að standa þannig að málum að ekki megi einu sinni fá eðlilegar skýringar. Það liggja ekki fyrir neinar orðaskýringar á þeim efnisþáttum sem um er að ræða og það er verið að taka upp einstakt kerfi sem hugsanlega gæti verið til þess fallið að valda verulegum erfiðleikum í fjármálakerfi landsins þegar fram í sækir.

Því miður stendur fyrst og fremst eftir sá vandi sem kom upp á síðustu metrunum. Fram til þess tíma verður að segja að ágætisvinnsla hafi verið á hlutunum í viðskiptanefnd og frumvarpið þokast til betri vegar. En að taka þá breytingartillögu sem meiri hlutinn leggur til, sem er byggð á algerum misskilningi — það kom fram í því sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hafði fram að færa, það lá ljóst fyrir að hann hafði misskilið það sem hann lagði til grundvallar þegar hann lagði fram tillöguna sem hér liggur fyrir sem breytingartillaga meiri hlutans. Jafnframt voru skýringar formanns viðskiptanefndar mjög ótrúverðugar hvað þetta varðar. Það sem meginmáli skiptir er að hér er um óvönduð vinnubrögð í lagasetningu að ræða. Ég ætla ekki að nota það orð sem mér dettur í hug vegna þess að þá er ég hræddur um að virðulegur forseti mundi áminna mig um að gæta orða minna, ekki væri um þinglegt orðaval að ræða.

Hér er sem sagt um það að ræða að það er misskilningur hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar — það sem hann misles í skýrslu Evrópunefndarinnar — sem gerir það að verkum að við höfum hér mjög vonda breytingartillögu. (HöskÞ: Hvaða vitleysa.) Ég gerði ítarlega grein fyrir því í ræðu minni hér áðan og ég ætla að benda hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni á það. Hv. þm. Pétur Blöndal gerði líka ítarlega grein fyrir því í ræðu sinni hér áðan og það er lágmarksvirðing við þingið að menn fylgist með umræðum um atriði sem þeir bera jafnmikið fyrir brjósti eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Ég er búinn að gera það og ég vænti þess að þingmaðurinn hafi gert sér grein fyrir því, ég vísaði í tölulið 180 í skýrslunni. Hann vísaði í töluliði 170 og 171 og ég vísaði í töluliði 174 og 180, hann getur komið hér upp í andsvar á eftir og gert grein fyrir þeim sjónarmiðum.

Það er hugsanlega óbrotinn minnisvarði þeirrar frumvarpssmíðar sem hér er um að ræða, og hv. meiri hluti stendur að hér á þinginu, að það miðaði fyrst og fremst að því að koma á annarri stjórn í Seðlabankanum og hrekja menn úr störfum frekar en að gera bragarbót á peningastefnunni. Í dag segir frá því að norska krónan sé besti gjaldmiðill heims og sá seðlabankastjóri sem hefur hrakist úr starfi hefur verið ráðinn til norska seðlabankans.