136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður er sakaður um það í ræðu að hafa misskilið eitthvað er algjört lágmark að það sé útskýrt hvað er misskilið. Mér finnst lágmarkskurteisi í þingsölum að útskýra það, a.m.k. í stuttu máli þótt ekki sé beðið um meira.

Ég misskil ekki lið 171, þar stendur að seðlabankar gegni lykilhlutverki í heilbrigði fjármálakerfa og til þess að þeir, og þá sérstaklega Seðlabanki Evrópu, geti sinnt því hlutverki sínu að vernda fjármálalegan stöðugleika, eins og peningastefnunefndin á að gera, ættu þeir að fá skýra og formlega heimild til að meta heildaráhættu í fjármálakerfinu og gefa út viðvaranir þegar þörf er á.

Hv. þm. Jón Magnússon vísar hér í tölulið 180 sem hann segir að eigi skýra hvernig fara eigi með þessa grein. Algjör misskilningur. Þessi nefnd leggur til að þetta sé sú leið, þetta sé ákvæðið sem setja eigi inn í löggjöf landa til að koma í veg fyrir að við lendum aftur í því sem við erum akkúrat að glíma við núna, Íslendingar. Í lið 180 er bara verið að segja að í framhaldinu eigi að skipa nefnd sem skili skýrslu um það hvort þær aðgerðir sem gripið er til beri árangur eða ekki. (Gripið fram í.) Það er ekkert verið að tala um seðlabanka í þessu, það er verið að tala um nefndina. Ég ráðlegg þingmanninum að lesa þetta og vera sanngjarn og málefnalegur í umræðunni. Það er algjört lágmark.