136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:20]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki var þessi ræða málefnalegri en sú fyrri. Meiri hluti nefndarinnar ákvað að fá þessa skýrslu og bíða eftir henni. Ég stóð að þeirri ákvörðun ásamt sjálfstæðismönnum. Þegar skýrslan kom og okkur gafst tækifæri til að fara yfir þær tillögur sem skýrsluhöfundar leggja til að gripið verði til kemur einfaldlega í ljós að þær tillögur henta hv. þm. Jóni Magnússyni ekkert sérstaklega vel vegna þess að þær ganga út á það að settar verði í lög reglur sem stuðla eiga að því að viti menn um áhættuþætti sem standa að fjármálakerfinu eigi þeir að skýra frá því, að það sé einfaldlega ekki verið að hvísla í eyrað á mönnum bakdyramegin. Ég misskil ekkert í þessu, ekki neitt. Hins vegar hef ég bent á að hv. þingmaður vísar hér í tölulið 180 sem fjallar ekki um þetta.

Þegar maður er ásakaður um að hafa misskilið eitthvað, af hverju er það ekki útskýrt nákvæmlega hvað það er í staðinn fyrir að segja hér í ræðu? „Þú áttir bara að hlusta á ræðu mína fyrr í dag.“ (JM: Af hverju gerðirðu það ekki?) Ég er búinn að lesa upp nákvæma þýðingu á þessu ákvæði og það sem kemur seinna fram í skýrslunni er svo útfærsla á því hvernig meta eigi þetta í framhaldinu sem Evrópusambandið vill gera. Það er algjör óþarfi að vera með hártoganir á þessu ákvæði. (Forseti hringir.) Peningastefnunefndin á einfaldlega að meta, við veitum peningastefnunefndinni, eins og við gerum annars staðar í þessu ákvæði (Forseti hringir.) úrræði til að meta hvernig hún vill að staðið sé að málum.