136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:22]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í góðri ræðu minni fyrr í dag (Gripið fram í: Já, mjög góð …) kemur fram í tölulið 180 í skýrslunni frá Evrópusambandinu að þegar þau atvik koma upp sem um ræðir og geta bent til að um sé að ræða alvarleg hættumerki beri að gera formanni EFC, þ.e. sérstakri viðbragðsnefnd, grein fyrir því. (Gripið fram í.)

Hvað gerist síðan? Um er að ræða hvorki meira né minna en sex stig til viðbótar áður en sú leið sem umrædd breytingartillaga gerir ráð fyrir að sé farin kemur til skoðunar. Það var það sem … (Gripið fram í.) Þú fékkst tíma áðan, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, ég er í ræðustólnum núna. Það var þetta sem ég var að segja og benda á. Þú taldir þig hafa skilið þetta á ákveðinn hátt en það var misskilningur hjá þér. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það þó að til þess komi stundum að menn misskilji eðlilega hluti, það er nú bara þannig.

Það sem ég gagnrýndi líka var að hér vantar í raun alveg inntakið á bak við þetta. Það var meginatriðið í því þegar ég talaði um óvandaða lagasetningu og vandann við það að koma með breytingartillögur eins og þessa sem gjörbreyta eðli máls á milli 2. og 3. umr. Ég vísaði m.a. í fyrrverandi formann Framsóknarflokksins, Ólaf Jóhannesson, þar sem hann fjallar um það í bók sinni um stjórnskipunarrétt, hvernig líta beri á það þegar breytingartillögur sem þessar koma fram með þeim hætti og hvort þær standist stjórnskipunarlega. Ég velti því fyrir mér og taldi að þarna gætu verið áhöld um það þó að hugsanlega hefði skapast venja í þinginu um að gera annað og ég taldi það nauðsynlegt að þingið skoðaði starfsreglur sínar til þess að gæta að því að hafa vandaða lagasetningu í hvívetna hvaða mál sem um væri að ræða.