136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sál, sem, síðar varð Páll postuli, var í hópi efasemdamanna og hélt í merkilegt ferðalag til Damaskus. (Gripið fram í.) Á leiðinni var hann snortinn hendi Guðs og upp frá því fylgdi hann meistaranum.

Hv. þm. Jón Magnússon hefur nú lagt upp í sína för til sinnar óeiginlegu Damaskus og hann hefur, eftir að hann náði þangað, fylgt sínum meistara. Hv. þingmaður hélt hér uppi harðri gagnrýni á Seðlabankann á meðan hann var í röðum Frjálslynda flokksins, stóð m.a. að frumvörpum sem höfðu sama markmið og það frumvarp sem við ræðum hér. Nú hefur hann algjörlega skipt um ham og fylgir meistaranum nýja, nú ver hann Seðlabankann.

Ég kem aðallega upp til að vekja eftirtekt á því að hv. þingmaður má þó eiga það að það eimir enn nægilega mikið eftir af málefnalegum trúverðugleika í fari hans til að segja þó að enda þótt að hann hefði upphaflega verið óhress með frumvarpið hefði mikið verið unnið í því og það væri nú komið í það sem hann kallaði þokkalegt horf. Það finnst mér vera merkileg yfirlýsing. Hans nýju flokksbræður og flokkssystur hafa undanfarna daga rifið sig hás alveg niður fyrir þind til þess að halda því fram að þetta væri vont frumvarp og það hefði ekkert batnað í meðförum nefndarinnar. Svo kemur þessi maður, sem er reyndastur allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að lögspeki, og segir að eftir vinnu nefndarinnar sé það bara komið í þokkalegt horf. Það er einkunn sem ég sætti mig vel við og get vel lifað með og þakka hv. þingmanni fyrir að segja sannleikann í þessu máli. Hann hefur lýst því yfir að þetta sé bara orðið að ágætismáli.