136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti talið hér upp mjög mikilvæga lagabálka, t.d. einn sem varðar mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sem hefur verið gjörbreytt í meðförum þingsins og þykja þó brúklegir í dag. Það frumvarp sem síðar varð að þeim lögum sem ég gat um áðan var þannig að hverri einustu grein þess var breytt. Samt sem áður sagði enginn að það væri ekki þingtækt, það sagði enginn að það væri svo vont að það ætti að henda því út.

Það gerist einfaldlega oft í meðförum þingsins að þingið, sem sem betur fer vinnur sína vinnu vel, bætir oft þá afurð sem lögð hefur verið fram af hendi framkvæmdarvaldsins. Til þess er vinna þingsins. Þess vegna höfum við þessar mörgu umræður til að geta róið fyrir allar víkur og bætt málin.

Mér finnst hins vegar að hv. þingmaður hafi gengið skrefi lengra í túlkun sinni á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins en ég hafði gert mér grein fyrir að væri áður uppi, þ.e. hv. þingmaður lýsir því hér yfir að ekki einungis telji hann að málið sé komið í þokkalegt horf heldur segir hann mér þau tíðindi, sem ég gengst fúslega við að ég hafi ekki gert mér grein fyrir áður, að aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi líka í ræðum sínum í dag lýst því yfir að vinna nefndarinnar hafi skilað þeim árangri að málið sé bara orðið að ágætismáli.

Um hvað snýst þá öll þessi deila? Þetta er það sem hv. þingmaður segir fyrir hönd sinna nýju flokksbræðra og -systra. Ég held að allir geti þá nokkuð vel við unað og hugsanlega sé komið að því að við getum farið afgreiða þetta ágætismál. Hv. þingmaður lýsti sínu eigin þingmáli og sagðist hafa haft aðra aðferðafræði. Það er alveg rétt hjá honum, en markmiðið var það sama. Alveg eins og markmiðið með hinu upphaflega frumvarpi hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar var hið sama og markmið stjórnarfrumvarpsins.

Þessi deila hefur í reynd bara snúist um það að Sjálfstæðisflokknum er skipað í vörn fyrir hinn raunverulega leiðtoga sinn sem hefur stýrt flokknum úr musteri Seðlabankans og hálfri ríkisstjórninni fram á þetta ár.