136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls að nýju til þess að árétta nokkra þætti í tilefni af þeirri umræðu sem farið hefur fram. Í fyrsta lagi vildi ég nefna það til áréttingar vegna þess að í umræðunum hefur stundum leikið vafi, að því er virðist, hjá hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna hver afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessu máli er. Nefni ég t.d. ræðu hæstv. utanríkisráðherra áðan þar sem hann rangtúlkaði stefnu sjálfstæðismanna í þessu máli að hluta til.

Afstaða okkar frá upphafi hefur verið sú að nálgunin sem felst í þessu frumvarpi væri of þröng. Að gera tillögur um skipulagsbreytingar eða breytingar á skipuriti á toppi Seðlabankans er að okkar mati ekki fullnægjandi breyting á löggjöf á þessu sviði til þess að mæta þeim fjárhagslegu áföllum sem sagt er í greinargerð með frumvarpinu að því sé ætlað að mæta.

Við höfum við alltaf talið að víkka ætti sjóndeildarhringinn þegar kemur að umræðum um þessi mál. Það ætti að horfa á seðlabankalögin í heild, samspil seðlabanka og annarra eftirlitsstofnana á þessu sviði og reyna að gera lagabreytingar þannig úr garði að þær verði raunverulega til þess að mæta þeim vanda sem við stöndum vissulega frammi fyrir. Það hefur verið okkar afstaða allan tímann og við höfum í gegnum þrjár umræður haldið þessu sjónarmiði á lofti.

Í fyrstu umræðu málsins lögðum við töluvert mikla áherslu á að frumvarpið væri illa úr garði gert, hroðvirknislega unnið og óvandað. Milli 1. og 2. umr. urðu verulegar breytingar til bóta á ýmsum ákvæðum frumvarpsins og við studdum þær breytingartillögur. Það er rétt. Við héldum hins vegar til haga almennum athugasemdum okkar um að frumvarpið væri ekki nægilega víðtækt og nefndum auk þess nokkra þætti þar sem við töldum að bæta þyrfti úr.

Þessi sjónarmið höfum við svo endurtekið við 3. umr. og enginn þarf að velkjast í vafa um að við teljum að á þessu stigi málsins sé málið hreinlega ekki komið á það stig að hægt sé að ljúka því sem lögum frá Alþingi. Það byggir bæði á þeim almennu sjónarmiðum sem ég gerði grein fyrir áðan og það byggir líka á því að á lokastigum málsins í viðskiptanefnd þingsins var þannig staðið að verki að okkur finnst þau vinnubrögð algerlega óásættanleg.

Við höfum rakið hvernig það gerðist. Beðið var eftir skýrslu frá Evrópusambandinu um viðbrögð við erfiðleikum á fjármálamarkaði. Sú skýrsla var gerð opinber í hádeginu í gær. Þingmenn höfðu örfáa klukkutíma til þess að kynna sér málið. Þegar nefndin var kölluð aftur saman til þess að fjalla um skýrsluna urðu ekki umræður um hana heldur lagði meiri hlutinn í nefndinni; Samfylking, Vinstri grænir og Framsóknarflokkur, fram breytingartillögu sem varð síðan umræðuefnið. En jafnvel á henni fékkst ekki almennileg yfirferð eða greinargóð lýsing á því hvað í henni fælist því að öllum óskum okkar um að leita álits sérfræðinga á efni hennar var hafnað. Þetta eru atriði sem við getum með engum hætti sætt okkur við.

Mér finnst líka ljóst af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað nú við 3. umr. að málið er ekki komið á það stig að það geti talist fullunnið. (Gripið fram í: Annað sagði Jón Magnússon.) Hv. þm. Jón Magnússon er sammála mér um þessa þætti. Hann er hins vegar, eins og ég vitnaði til áðan, sammála okkur um að gerðar voru verulegar breytingar til bóta milli 1. og 2. umr. en það þýðir ekki að málið hafi verið orðið gott. Það var ekki orðið fullkomið. Það var ekki fullunnið að okkar mati. Og að ýja að öðru er útúrsnúningur.

Það sem einkennir málið bæði í upphafi og í lokaafgreiðslu þess er að okkar mati gríðarlegt óðagot. Um er að ræða heimatilbúið tímahrak sem réði því að frumvarp þetta var fyrst lagt fram á þingi án þess að það hefði fengið viðhlítandi undirbúning. Nú á að ljúka umræðunni á þingi án þess að málið hafi verið fullrætt, áður en breytingartillögur sem fram hafa komið hafa verið fullræddar.

Við höfum bent á að sú breytingartillaga sem ríkisstjórnarflokkarnir og Framsóknarflokkurinn lögðu fram í gær væri þess eðlis að hún fæli í sér verulega breytingu á frumvarpinu. Við höfum talið að það væri nauðsynlegt að fá þó að ekki væri nema einn sérfræðing eða tvo sérfræðinga til að láta í ljós álit á því. Ég hygg að verði frumvarpið samþykkt með þeirri breytingu sem þarna um ræðir þurfi Alþingi mjög fljótlega að grípa til einhverra lagfæringa til þess að koma þessum ákvæðum laganna aftur í vitrænt horf. En það er tímahrak, óðagot og taugaveiklun sem hafa einkennt meðferð þessa máls sem hlýtur að vekja athygli.

Á mánudaginn muna töldu ríkisstjórnarflokkarnir, eins og hv. þingmenn, þingið óstarfhæft vegna þess að upp kom ósk í nefnd um að fá tvo daga í viðbót til þess að fara yfir málið. Þingfundi var frestað í þrígang og síðan fundi slitið og öll mál tekin út af dagskrá í einhverri allsherjartaugaveiklun vegna einfaldrar málefnalegrar óskar um að mál væri tekið til aðeins vandaðri meðferðar í nefnd. Og nú, á lokastigi málsins, þegar við höfum gert kröfu um það í viðskiptanefnd að fá aðeins lengri tíma til þess að fara yfir ný gögn í málinu, nýja breytingartillögu, er því hafnað vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir eru búnir að búa sér til tímahrak. Þeir eru það taugaveiklaðir gagnvart þessu máli að það má engan tíma missa til þess að koma því í gegn.

Jafnvel er gefið í skyn að samþykkt þessa frumvarps sé með einhverjum hætti forsenda þess að gripið sé til efnahagsaðgerða í landinu. Ég verð að játa að ég skil ekki þann röksemdaflutning. Ég skil ekki hvernig meðferð þessa máls í þinginu hefur komið í veg fyrir að ríkisstjórnin leggi fram önnur frumvörp á þinginu til þess að efla stöðu heimilanna og fyrirtækjanna. Ég átta mig ekki á því að þingið þurfi að vera óstarfhæft þótt eitt mál sé rætt í einhverja daga í nefnd. Mér finnst það gjörsamlega óskiljanlegt.

En sú ofuráhersla sem ríkisstjórnin hefur lagt á þetta mál vekur þá spurningu hvort breyting á skipuriti á toppi Seðlabankans sé með einhverjum hætti meiri háttar stefnumál þessarar ríkisstjórnar. Var ríkisstjórnin mynduð í kringum þetta mál? Hangir samstarf þessara flokka saman á því? Maður hlýtur að spyrja sig þeirra spurninga.

Efni frumvarpsins er að sönnu einfalt. Við sjálfstæðismenn hefðum viljað hafa það víðtækara. Efnið snýr að breytingu á fjölda bankastjóra. Það snýr að stofnun peningastefnunefndar. Ég spyr: Hvað í þeim skipulagsbreytingum er forsenda fyrir efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar? Ég hef ekki fengið svör við því í þessum umræðum.

En það er margt í þessu sem vekur furðu. Ég hygg að Alþingi hafi oft sýnt að það geti unnið vel að frumvörpum. Viðskiptanefnd átti góðan sprett milli 1. og 2. umr. og fyrir það ber að þakka. En lyktir málsins virðast ætla að vera með þeim hætti að um er að ræða algjörlega óásættanlega lagasetningu, óásættanleg vinnubrögð á þessu þingi.

Að lokum, herra forseti, tel ég rétt að fram komi að við sjálfstæðismenn höfum verið reiðubúnir til þess að skoða skipulagsbreytingar sem varða Seðlabankann. Við höfum verið reiðubúnir að skoða breytingar sem varða Fjármálaeftirlitið. Við höfum verið tilbúnir að skoða breytingar sem snúa að hlutverki þessara stofnana, samspili þeirra, verkaskiptingu og slíkum þáttum. Við höfum reynt að koma þeirri umræðu á framfæri í meðferð þessa máls af því að okkur finnst það lykilatriði í sambandi við að breyta löggjöfinni til þess að bregðast við þeim fjármálalegu áföllum sem dunið hafa yfir á síðustu mánuðum. Þess vegna hefur áhersla okkar verið á það.

Við vitum að það eru engin raunveruleg viðbrögð við fjármálalegum áföllum að gera einhverja breytingu á fjölda bankastjóra í Seðlabankanum. Og það eru heldur engin viðbrögð þó að fyrirkomulagi peningastefnunefndar sé með einhverjum hætti breytt. Við vitum það og það kom skýrt fram við 2. umr. hvernig fyrirkomulag peningamálaákvarðana er í dag. Það er fjölskipað stjórnvald sem við getum kallað peningastefnunefnd, sem við getum kallað bankastjórn Seðlabankans, sem tekur ákvörðun eftir ákveðnum leikreglum. Það er ekki nein grundvallarbreyting í þeim efnum. Frumvarpið er því ekki til þess fallið, og hefur ekki verið það frá upphafi, að mæta þeim vandamálum sem sagt er að það eigi að mæta. Þá veltir maður fyrir sér tilganginum með frumvarpinu. Maður veltir því fyrir sér hvort tilgangurinn sé einhver annar en gefið er í skyn. Hvort sú málefnalega nálgun sem gerð er að yfirbragði frumvarpsins sé bara leiktjöld. Hvort um sé að ræða lengsta og flóknasta uppsagnarbréf sem sögur geta um. Það væri þá gott ef það kæmi fram með skýrum hætti frá talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar. Það örlar á þeim sjónarmiðum, t.d. í orðum hæstv. utanríkisráðherra áðan, að þetta snúist í rauninni bara um einhverja menn.

Það örlar á því og í ræðum annarra þingmanna sem hér hafa talað, einkum úr Samfylkingunni. En maður hlýtur að spyrja sig hvort þessi lagalega æfing, þessi tilraunastarfsemi með löggjöf um Seðlabankann, sé raunverulega bara lengsta og flóknasta uppsagnarbréf sem um ræðir. Það er nokkuð alvarlegt vegna þess að löggjöf um Seðlabanka er meðal grundvallarlaga í landinu. Eins og oft hefur verið vitnað til og margir umsagnaraðilar og álitsgjafar hafa látið í ljós er mikilvægt að til löggjafar um Seðlabankann sé vandað, að ekki sé unnið að þeim í óðagoti eða taugaveiklun. Að vandað sé til verka og reynt að ná sátt en mál séu ekki keyrð í gegn á allt of skömmum tíma án þess að nauðsynleg málefnaleg yfirferð sé höfð í heiðri.