136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingartillögu sem kemur fram af hálfu minni hluta viðskiptanefndar við frumvarpið á þessu stigi. Í sjálfu sér er þetta ekki veigamikil efnisbreyting sem við leggjum hér til, heldur einungis breyting á ákvæði til bráðabirgða sem felur það í sér að þegar forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra í fyrsta skipti eftir gildistöku laganna skuli hann leita staðfestingar Alþingis.

Við vöktum athygli á því í nefndarstarfinu við 2. umr. og í nefndaráliti okkar þá að óvenjumikil völd væru færð til þess forsætisráðherra sem skipar í stöður innan Seðlabankans við gildistöku þessara laga. Við teljum rétt í ljósi dreifðs valds og í ljósi þess að eðlilegt sé að lýðræðislegt samráð eigi sér stað [Háreysti í þingsal.] að við leitum staðfestingar Alþingis í þetta skipti.