136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[17:39]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni afgreiðsla á frumvarpi sem er í eðli sínu einfalt og lítið, það eru tvö atriði sem verið er að gera breytingar á, annars vegar að fækka bankastjórum úr þremur í einn og væntanlega hlýst af því einhver sparnaður. Í öðru lagi er verið að setja á fót peningastefnunefnd sem tekur ákvarðanir og ætlað er að verði gegnsærri og aðgengilegri en verið hefur hingað til. Þetta er grunnurinn í frumvarpinu. Aldrei var ætlunin að gera allsherjarbreytingu á skipan Seðlabankans eða neitt í þá veruna eins og hv. sjálfstæðismenn hafa talað um hér í umræðunni. Þetta eru tvær litlar breytingar, ég tel að þær verði Seðlabankanum til framdráttar og verði til þess fallnar að auka traust hans og þess vegna styð ég afgreiðslu þessa máls.