136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikill samhljómur hjá okkur hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni í þessu máli og er það vel. Ég verð að segja að síðustu vikur á Alþingi hafa verið byltingarkenndar að því leytinu til að þegar ég sit í sölum Alþingis finnst mér loksins að ég hafi raunveruleg áhrif. Sú breyting sem átt hefur sér stað í íslenskum stjórnmálum eftir að minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við hefur leitt til þess að vægi Alþingis hefur aukist til muna.

Við horfðum upp á það og lásum um það í dagblöðum hvað ríkisstjórnin og forustumenn hennar ætluðu sér að gera og hvaða mál ætti að afgreiða. Í raun og veru var það bara í tilkynningaformi. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að við þurfum að lyfta Alþingi Íslendinga á þann stall á ný að það sé hið raunverulega löggjafarvald. Að það sé framkvæmdarvaldið sem starfi í umboði löggjafarvaldsins en ekki öfugt eins og því miður hefur verið á undangengnum árum.

Ég segi því í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði áðan, að hafi ríkisstjórnin nauman meiri hluta getur það alveg farið þannig við kosningar í nefndir þingsins að hún hafi jafnvel ekki meiri hluta í nefndum. Þannig er lýðræðið. Við skulum því endurskoða þessi mál og hafa það þá til hliðsjónar að meginverkefnið hlýtur að vera að styrkja stöðu Alþingis, styrkja stöðu nefnda þingsins, styrkja stöðu alþingismanna þannig að það sé framkvæmdarvaldið sem hlítir þeim en ekki öfugt. Það er mikilvægt að við höfum það hugfast í þeirri vinnu sem fram undan er að við aukum veg og virðingu Alþingis að nýju sem mér hefur því miður fundist á skorta á undangengnum áratugum.