136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:50]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að frumvarpið sé mjög af því góða og geti orðið til þess að laga ýmis vinnubrögð í Alþingi. Þegar ég sem nýliði kom hingað og fór að fylgjast með starfinu og velta fyrir mér af hverju hlutirnir væru framkvæmdir með þeim hætti sem við erum að horfa upp á spyr maður sig: Af hverju er ekki hægt að gera hlutina öðruvísi? Af hverju er ekki hægt að gera þetta á annan hátt? Maður veltir ýmsu fyrir sér.

Ég get tekið undir flest það sem fram hefur komið bæði hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og eins hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Það er þó eitt sem hefur alltaf stungið mig mikið og það er þegar frumvörpum eða þingsályktunartillögum er vísað til nefnda, þá eru þau ekki afgreidd úr nefndinni. Frumvörp og þingsályktunartillögur eru látin liggja, þau eru söltuð í nefndunum. Ég hefði talið að það væri mikilvægt atriði að þau fengju afgreiðslu, hvort sem það er frumvarp eða þingsályktunartillaga, og að þau yrðu afgreidd í nefndunum, samþykkt til umræðu aftur inn í þingið eða hafnað. Ekki nota þá aðferð sem við þekkjum að mál eru látin liggja, þau eru söltuð og það er ekkert gert með þau.

Ég get alveg tekið undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi um muninn á stórum og litlum flokkum. En við skulum ekki gleyma því að (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn mun væntanlega minnka núna og aðrir flokkar (Forseti hringir.) stækka, samanber Frjálslynda flokkinn.