136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þessi síðustu orð hv. þingmanns þá eru margir sem ylja sér við dagdrauma og það er ágætt, það gefur deginum og lífinu lit.

Ég hef margoft rætt meðhöndlun frumvarpa og þingsályktana í nefndum. Mér finnst að nefnd eigi alltaf að afgreiða mál á þokkalegum tíma, umsagnarferli og annað slíkt, og svo á hún náttúrlega að afgreiða málið. Hún á að gera fernt við hvert einasta mál. Hún á annaðhvort að leggja til að Alþingi samþykki það eða hafni því. Hún á að leggja til að frumvarpið verði sent til þeirra sem sömdu það vegna galla í samningunni eða vísa því til — gömul hugsun — til ríkisstjórnarinnar, ég tek það aftur, ég ætla að hætta við þá fjórðu leið af því að ég vil ekki að ríkisstjórnin geri neitt annað en að framkvæma, hún er nefnilega framkvæmdarvaldið.

En ég get alveg tekið undir þetta. Við eigum ekkert að vera að hugsa um sálarheill þeirra sem sömdu frumvarpið. Það er alveg hægt að leggja til að frumvarp verði fellt, það er af því að skoðanir viðkomandi þingmanns verða undir og þá sætta menn sig bara við það. Ég hef margoft horft upp á rauða töflu hérna, glóandi rauða af tillögum sem ég hef flutt og hafa verið kolfelldar. Sálarheill mín var alveg í lagi eftir það.