136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[19:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og málefnalega. Það er eitt atriði sem ég vildi gera athugasemd við eða tvö.

Það er í fyrsta lagi að menn kynnast mörgum málaflokkum. Í sjálfu sér fækkar þeim ekki neitt. Það koma jafnmargir málaflokkar inn. Það heyra fleiri málaflokkar undir eina nefnd, til dæmis allsherjar- og menntamálanefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd, heilbrigðis- og félagsmálanefnd. Þarna koma tveir málaflokkar saman þannig að þingmenn munu kynnast jafnmörgum málaflokkum eftir sem áður og það er mjög áhugavert eins og ég get alveg staðfest.

Varðandi sérfræðingaveldi í ráðuneytunum. Ég sé fyrir mér að það yrði flutt inn til þingsins bara þannig en að þingmenn mundu ritstýra verkinu. Svo geta menn sett upp undirnefndir fyrir viðamikil mál, fengið inn hagsmunaaðila og einhverja nefndarmenn sem mundu vinna með nefndinni að því að búa til lagafrumvörp, en það yrði allt saman undir ritstjórn viðkomandi nefndar. Það er það sem skiptir verulega miklu máli meira en þegar — ég segi nú ekki kannski — ráðuneytin eru yfirleitt hlutlaus. Þegar einstaka stofnanir semja frumvörp vilja þær oft hafa eigin hagsmuni meira að leiðarljósi en endilega hagsmuni kjósenda eða borgaranna, en það er einmitt hagsmuna þeirra sem þingið á að gæta. Þess vegna held ég að öll lagasetningin mundi líta öðruvísi út ef þingnefndir hefðu forgöngu og frumkvæði að lagasetningunni.