136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[19:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn ágreiningur sé á milli okkar hv. þm. Péturs H. Blöndals um þetta. Við erum að tala um sömu markmiðin en kannski örlítið ólíkar leiðir að hvað við teljum vera bestu lausn. Ég var að reyna að færa rök fyrir því að ég væri ekki alveg viss um að þetta sérfræðingaveldi, eins og ég kallaði það, það að flytja það inn í þingið í sjálfu sér breytti málinu. Það fer alltaf eftir því með hvaða hætti við vinnum úr hlutunum sjálfir, sem sagt þingmennirnir. Ég held því að við getum verið sammála um að það þarf að skoða þetta. Það er rétt að hjá hv. þingmanni að það er hægt að kynnast málaflokkum. Nefndirnar verða stærri. En eins og þetta er lagt upp, sem eðlilegt er, þá er reynt að sérhæfa þær líka svolítið við ákveðin mál þannig að það er ákveðin hætta á því að menn verði sérfræðingar í því og það verði skuggaráðuneyti þar sem stjórnað er meira og minna í gegnum það. Þessi hætta er nú þegar til staðar. Hér greiða auðvitað margir kannski atkvæði eftir því sem þeir hafa fengið að heyra frá sínum flokksmönnum varðandi hvað sé rétt og rangt.

Meginmálið er þetta: Við erum að leita að betri leiðum. Það er hlutverkið og þess vegna er umræðan mjög mikilvæg og mjög góð og það innlegg sem hér kom með því frumvarpi sem hér er til umræðu.