136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

þingrof og kosningar.

[15:03]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hver eru áform ríkisstjórnarinnar varðandi þingrof, lyktir þingstarfa og boðun alþingiskosninga. Samkvæmt 24. gr. stjórnarskrárinnar er hámarksfrestur til boðunar þingkosninga 45 dagar. Sá dagur er 12. mars, þangað til eru 10 dagar. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla getur ekki hafist fyrr en búið er að boða til kosninga. Því er ljóst að afar stuttur tími er til stefnu enda stendur venja til þess að þingstörfum ljúki þegar þingrof er boðað.

Það er óvenjulega stuttur tími eftir. Ekki eru margir hefðbundnir þingdagar til stefnu en væntanlega á eftir að ljúka mörgum málum. Ég vil taka það fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að á þessum stutta tíma munum við greiða fyrir þeim þingmálum sem líkleg eru til að hjálpa til við að leysa efnahagsvandann og greiða fyrir endurreisn bankakerfisins svo að dæmi sé tekið. En það verður líka að ætlast til þess að hægt verði að heyja í landinu hefðbundna kosningabaráttu, að þingmenn geti notað tímann til kosninga til að ræða við kjósendur, séu ekki bara á fundum í Alþingi. Þannig hefur það verið í aðdraganda þingkosninga á Íslandi um mjög langt árabil.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvaða áform hefur hún sem forsætisráðherra gagnvart því að rjúfa þing, ljúka þingstörfum og boða þingkosningar?