136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

þingrof og kosningar.

[15:07]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Herra forseti. Það er 2. mars í dag, það eru 10 dagar í þessa dagsetningu. Niðurstaðan í þetta mál verður að koma, hún verður að liggja fyrir þannig að stjórnmálaflokkarnir, þingmenn og aðrir geti gert sínar ráðstafanir.

Forsætisráðherra svaraði ekki ákveðið til um þetta en hún hafnaði því ekki heldur, sem ég sagði, að venja stendur til þess að þegar þing er rofið ljúki Alþingi störfum. Miðað við að þannig verði staðið að málum, eins og eðlilegt er, þá eru ekki margir þingdagar eftir til að ljúka þingmálum. Það verða allir að gera sér grein fyrir þessu. Það getur ekki verið ætlun ríkisstjórnarinnar að láta þing sem búið er að rjúfa, rofið Alþingi, halda áfram löggjafarstörfum í einhvern tíma, ég tala ekki um að breyta stjórnarskránni eins og áform munu vera uppi um hjá ríkisstjórninni. Ég neita að trúa því að það standi til við þessar aðstæður.