136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

sala Morgunblaðsins.

[15:09]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Tilefni þess að ég kem í pontu með fyrirspurn er nýlegur samningur um sölu Morgunblaðsins. Eins og málið kemur mér fyrir sjónir þá virðist svo að núverandi ríkisbanki, Íslandsbanki, hafi nýlega afskrifað 2 milljarða vegna Morgunblaðsins og í fréttaumfjöllun er vikið að því hvort hugsanlegt sé að litið verði til viðskipta um önnur útgáfufélög á Íslandi í framtíðinni með sambærilegum hætti og þeim viðskiptum sem virðast hafa átt sér stað um Morgunblaðið.

Ég held að flestum sé kunnugt um að Fréttablaðið hefur verið í erfiðum rekstri og Ríkisútvarpið okkar hefur verið í erfiðum rekstri og Stöð 2 hefur verið í erfiðum rekstri. Ég velti því fyrir mér, með þeirri spurningu sem ég ber nú fram, hvort ætla megi að það fordæmi sem gefið hefur verið, að því er varðar Morgunblaðið og sölu þess, sölu útgáfufélagsins, verði til þess að í framtíðinni muni íslenska þjóðin taka á sig nokkra milljarða í afskriftum af skuldum fjölmiðla.

Ég tel að hér sé verið að fara inn á vafasama braut, hæstv. forseti, og vil því bera þessa spurningu fram og fá hæstv. ráðherra til að ræða þessa stöðu, hvaða fordæmi hér er verið að gefa.