136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

sala Morgunblaðsins.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef svarað fyrir þetta mál áður og svarið er einfalt. Þetta mál var alfarið í höndum viðkomandi banka og ríkið átti enga aðkomu að því sem eigandi að þeim banka. Miðað við það sem ég hef séð um þetta mál — og upplýsingar mínar eru fengnar með sama hætti og annarra þingmanna, ég hef fylgst með umfjöllun fjölmiðla — þá gengu hugmyndir fyrri eigenda um endurfjármögnun eða afskrift á lánum ekki upp. Bankinn tók þar af leiðandi þá ákvörðun að setja viðkomandi í söluferli og leita eftir tilboðum. Hagstæðasta tilboði var tekið og með því hefur bankinn væntanlega talið sig vera að gæta hagsmuna sinna á besta mögulega hátt og lágmarka það tjón eða tap sem fyrir lá í yfirveðsettu fyrirtæki í erfiðum rekstri.

Ég legg á það áherslu, eins og ég hef gert áður, að við slíkar aðstæður skiptir miklu máli að vinnubrögðin séu gagnsæ, að það liggi fyrir hvernig unnið er að máli, að það sé óvefengjanlegt að gætt sé jafnræðis og að tilboð séu metin á eðlilegum grundvelli og því hagstæðasta tekið í slíkum tilvikum. En þarna, eins og á svo mörgum öðrum sviðum, því miður, og í svo mörgum öðrum tilvikum, verður að horfast í augu við tap, við afskriftir, vegna þess að skuldsetning var orðin of mikil og reksturinn stóð ekki undir þeim. Þá er ekkert annað að gera en horfast í augu við að einhver afskrift verður að eiga sér stað til að reksturinn geti síðan gengið áfram fyrir sig.

Þetta á ekki, að mínu mati, að hafa fordæmi í þeim skilningi að með þessu sé gefinn upp boltinn gagnvart því að fyrirtæki á sama sviði fái einhverja tiltekna meðhöndlun frekar en önnur fyrirtæki. Væntanlega er það einfaldlega þannig að það er metið í hverju tilviki fyrir sig hvernig best verður unnið úr stöðunni og faglegar ákvarðanir teknar um það. En ég legg enn og aftur á það áherslu að mjög mikilvægt er að vinnuferlinu í slíkum tilvikum sé treystandi, það sé hafið yfir vafa, að upplýsingar séu veittar og þær séu gagnsæjar.