136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

sala Morgunblaðsins.

[15:13]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það var þetta sem ég var að höggva eftir, að við megum treysta því í framtíðinni að vinnuferlið sé skýrt og að fyrirtækjum í landinu verði ekki mismunað. Nú er búið að stíga þarna ákveðið skref sem þýðir afskrift einhverra milljarða og við vitum að fjöldamörg fyrirtæki í landinu eru í erfiðum rekstri. Ég hlýt að álykta sem svo að ef þetta mál gengur fram með þeim hætti sem það hefur gert, með samþykki og vilja núverandi ríkisstjórnar, séu menn að leggja ákveðnar línur. Þá erum við að tala um mjög mikla fjármuni, hæstv. forseti. Mér finnst því að það þurfi að gaumgæfa þetta mál mjög nákvæmlega og menn séu alveg klárir á því í hvaða vegferð þeir eru farnir.