136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

skuldir heimilanna.

[15:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Þessi svör hæstv. forsætisráðherra valda mér miklum vonbrigðum. Það er eins og hæstv. forsætisráðherra hafi ekki gert sér grein fyrir því að þegar lánin voru færð frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju voru þau afskrifuð. Búið er að gera ráð fyrir að hér verði miklar afskriftir og það er spurning með hvaða hætti við ætlum að koma til móts við þann vanda sem blasir við heimilum og fyrirtækjum.

Það þýðir ekki fyrir stjórnmálaflokka að segja: Ekki þetta, bara eitthvað annað. Við höfum heyrt það í stjórnmálaumræðunni (Gripið fram í.) á undanförnum árum. Þegar við horfum á það, hæstv. forseti, að menn víla ekki fyrir sér að afskrifa milljarða vegna viðskipta með Morgunblaðið og segja svo að ekki komi til greina að fara þá leið sem við framsóknarmenn leggjum til, að lækka skuldir á venjulegum fjölskyldum, getur orðið rof á milli stjórnmálamanna og almennings í landinu.

Það er óþol úti í samfélaginu (Gripið fram í.) gagnvart því að ráðist verði í aðgerðir, raunverulegar aðgerðir, (Forseti hringir.) og mér finnst leitt til þess að vita að hæstv. forsætisráðherra sé ekki reiðubúin til að lækka skuldir heimilanna sem nemur 13–14 mánaða verðbólgu. (Gripið fram í.)