136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

skuldir heimilanna.

[15:28]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að hér fyrir þinginu liggur t.d. frumvarp um greiðsluaðlögun, sem ég vona að verði að lögum sem fyrst, sem felur í sér að við þurfum að fara í verulegar afskriftir. Ég held að það sé alveg ljóst og hv. þingmaður má ekki gleyma því. En ég trúi því ekki að hv. þingmaður vilji fara út í flatan 20% niðurskurð á skuldum allra í landinu, hvort sem þeir þurfa á því að halda eða ekki. Fólk sem er kannski með háar tekjur og einhverjar skuldir að það eigi að færa þær niður um 20%, hvort sem fólk þarf á því að halda eða ekki. Mér finnst það ekki ganga. Við eigum þá að reyna að gera betur fyrir þá — kannski meira en þessi 20% — sem eru með lágar og meðaltekjur og eru mjög skuldsettir sem þurfa raunverulega á því að halda.

Að fara að afskrifa hér skuldir fyrir hálaunafólk sem skuldar eitthvað í sinni íbúð og er með háar tekjur, mér finnst það ekki koma til greina vegna þess að einhver þarf að borga brúsann, þar með skattgreiðendur og láglaunafólk líka og fólk með meðaltekjur. Við þurfum að gæta hófs í því sem við segjum og setja fram raunhæfar tillögur sem standast og gagnast fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda.