136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

kostnaður við loftrýmiseftirlit.

[15:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það var í tíð síðustu ríkisstjórnar, í tíð Samfylkingarinnar í utanríkisráðuneytinu, sem svokölluð Varnarmálastofnun var sett á laggirnar. Með þeim verkefnum sem þangað voru flutt er þessi stofnun með stóran lið í fjárlögum, nokkuð á annan milljarð. Hæstv. núverandi fjármálaráðherra hafði uppi stór orð um þessa stofnun og fann henni flest til foráttu, taldi algjöran óþarfa að setja hana á laggirnar og sagði að hana ætti auðvitað að leggja niður, eins og hæstv. ráðherra orðaði það þá. Hann sagði að þessi verkefni mætti að hluta til vinna fyrir miklu lægri upphæðir annars staðar í kerfinu en með þessu fyrirkomulagi. Við hæstv. fjármálaráðherra vorum sammála um þetta mál á sínum tíma. Ég hef sagt hér áður að ég flutti einhverjar tölur um þetta í þinginu undir húrrahrópum hv. þingmanna Vinstri grænna og mér leið ekkert allt of vel með það.

Nú er hluti af þessum verkefnum svokallað loftrýmiseftirlit. Frakkar komu hingað fyrst með herþotur sínar til að stunda eitthvert loftrýmiseftirlit sem hefur að mínu mati mjög takmarkaðan tilgang. Til stóð að Bretar kæmu hingað í desember en fallið var frá því, það þótti ekki við hæfi að þjóð sem beitti okkur hryðjuverkalögum kæmi (Forseti hringir.) hingað til að annast varnir landsins. Danir koma í þessum mánuði, virðulegi forseti. Hvað kostar það og hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra að borga úr ríkissjóði (Forseti hringir.) til að standa straum af því flugi?