136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[16:09]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hægt er að taka undir slagorð Bændasamtakanna um að treysta á landbúnaðinn. Í nýlegri könnun sem við létum gera á vegum Frjálslynda flokksins meðal félagsmanna okkar var m.a. spurt hvaða afstöðu þeir hefðu til flatlendis á Íslandi, þ.e. ræktarlands. Þetta var ein fimm spurninga sem við lögðum fyrir. Fram kom að mikill meiri hluti þeirra sem afstöðu tóku taldi að verulegu máli skipti að halda flatlendinu fyrir matvælaframleiðslu. Það er auðvitað ánægjuleg niðurstaða og reyndar í samræmi við hvernig við í Frjálslynda flokknum höfum talað um landbúnaðinn, að hann skiptir mjög miklu máli fyrir byggðir landsins, og við höfum stundum orðað það þannig þegar við tölum um sjávarútvegsstefnuna og landbúnaðinn að verið væri að standa að baráttu fyrir byggðirnar og berjast fyrir að þær héldu velli.

Þannig er það, hæstv. forseti, að við munum standa með landbúnaðinum og teljum að íslenska þjóðin hafi nú á tímum þrenginga áttað sig á því að landbúnaðurinn skiptir verulegu máli fyrir framtíðina og sé að átta sig á því að mikil verðmæti eru í því fyrir íslensku þjóðina að halda landinu í byggð og að byggðirnar nýti kosti sína og ræktunarmöguleika, en þar hefur vissulega ýmislegt ánægjulegt verið að gerast, vaxandi kornrækt og mjög öflug grænmetisrækt. Þar væri hægt að gera miklu betur með því að selja orkuna á einhverju svipuðu verði til grænmetisframleiðslu og við gerum nú til álvera. Það mundi spara okkur gjaldeyriseyðslu í innflutning grænmetis.

Ég held að Bjargráðasjóður verði að koma inn í þá stöðu sem nú stýrir áburðarverðinu. (Forseti hringir.) Það er ekki við það ráðið að taka 50% hækkun ofan á 80% í fyrra. Þar verða stjórnvöld að koma inn í.