136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[16:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem tóku þátt fyrir málefnalega og góða umræðu. Auðvitað hefðum við hugsanlega þurft lengri tíma og kannski hefði verið hægt að taka hvert viðfangsefni sem snýr að bændum fyrir sig og ræða sérstaklega í utandagskrárumræðum. Þessi umræða fer að sjálfsögðu fram á búnaðarþingi. Það var gott hljóð í bændum í gær og orðin Treystum á landbúnaðinn eru kannski einmitt það brýnasta sem þjóðin þarf að heyra í dag. Alveg rétt er að engin einföld lausn er til handa þeim bændum sem standa illa, aðföng hafa virkilega hækkað en tvö mál sem ég kom inn á í ræðu minni eru brýnni en önnur og mér fannst því miður svör hæstv. landbúnaðarráðherra frekar skýr, sérstaklega hvað varðar afnám vísitöluákvæðis í búvörusamningum. Hann vísaði til þess að hér væri ekki hægt að horfa til baka.

Þetta er ríkisstjórn sem hefur sagt að hún vilji breyta hlutum. Menn komu fram og gagnrýndu þetta mjög harkalega fyrir áramót og eiga að beita sér fyrir því að þetta ákvæði verði endurskoðað. Mér fannst líka hæstv. landbúnaðarráðherra skauta auðveldlega fram hjá því að í ræðu sinni á búnaðarþingi í gær sagði hann að það væri einfaldlega þannig að búið væri að gera samninga við Evrópusambandið um að innleiða hluta af matvælalöggjöf þess. Það er alger óþarfi og ég vildi spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra aftur hvort hann muni beita sér fyrir því að málinu verði slegið á frest eða því breytt, vegna þess að ég gat ekki skilið annað en að hv. þm. Jón Bjarnason væri (Forseti hringir.) á annarri skoðun en hæstv. landbúnaðarráðherra.